141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

grunnskólinn á Tálknafirði.

[10:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil brýna ráðherra til verka í þessu máli. Með fullri virðingu fyrir mörgum hér inni þá er það svo að ef einhver þekkir til grunnskólalaganna sem voru samþykkt 2008 er það sú sem hér stendur.

Það skiptir máli að tryggja að eðlilegt skólahald fari fram á Tálknafirði. Það stendur ekkert í lögunum sem bannar einkarekstur eða að einkaaðili sjái um skólareksturinn svo lengi sem það er á ábyrgð sveitarfélagsins og ekki greitt fyrir það aukalega heldur fjármagnað af hálfu sveitarfélagsins.

Ég óttast það hreint út sagt eftir að hafa hlustað á ráðherra, sem er hér í þinginu fyrir hönd Vinstri grænna, að hugmyndafræði Vinstri grænna sem vilji koma í veg fyrir einkarekstur í skólakerfinu muni ráða, fyrirmæli Kennarasambands Íslands muni ráða í þessu máli en ekki að menn hugi að velferð barnanna og kennslunni verði sinnt. Ég sé enga fyrirstöðu fyrir því að jafnábyrgur aðili og Hjallastefnan, sem hefur sinnt skólastarfi með eindæmum vel og aukið fjölbreytni í skólastarfi, sinni þessu hlutverki á Tálknafirði. Það skiptir máli að eðlilegt skólahald fari fram og það er hægt í samvinnu við Hjallastefnuna.