141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

skipulagsáætlun fyrir strandsvæði.

[10:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Fyrir missiri eða svo létum við gera úttekt á nákvæmlega þessum málaflokki, þ.e. hvernig strandsvæðaskipulagi er yfirleitt fyrir komið og athöfnum manna bæði á ströndum og hafi úti. Það kom í ljós að þarna er um að ræða starfsemi sem heyrir undir fjögur ráðuneyti og ellefu mismunandi stofnanir. Í kjölfarið var samþykkt í ríkisstjórn að hefjast handa við stefnumótun og frumvarpsgerð á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytis varðandi strandskipulag. Samkvæmt nýjum forsetaúrskurði sem lýtur að starfssviði nýs umhverfis- og auðlindaráðuneytis heyrir þessi málaflokkur með skýrum hætti þar undir.

Auk þess stendur yfir og er raunar núna í kynningarferli ný landskipulagsáætlun. Einn af áherslupunktunum þar sem kemur frá ráðherra er áhersla á strand- og hafskipulag. Sá kafli er núna til umsagnar og liggur á vefnum, einmitt vegna þess sem hér kemur fram og er í raun og veru forsenda fyrirspurnar hv. þingmanns að þessi mál hafa verið í ólestri. Í mínum huga er þetta mikið forgangsmál og verður á því tekið í gegnum landsskipulagsáætlun sem þingið mun taka til umfjöllunar en ekki síður með stefnumótun og frumvarpsgerð í samráði þeirra ráðuneyta sem með málin fara.