141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

skerðing elli- og örorkulífeyris.

[10:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann svaraði því þó ekki beint hvenær áðurnefnt bráðabirgðaákvæði verður afnumið. Varðandi það að grunnlífeyrir skerðist ekki fyrr en tekjur úr lífeyrissjóði ná 200 þús. kr. hefur þetta hins vegar mjög mikil áhrif á mjög marga eldri borgara.

Greiðslur úr lífeyrissjóðunum eru mikilvægasta uppspretta tekna eldri borgara og því hafa skerðingar á réttindum til útgreiðslu úr lífeyrissjóðum árin frá hruni reynst eldri borgurum og öryrkjum þungar í skauti. Fjármagnstekjur voru auk þess tekjutengdar að fullu við bætur almannatrygginga en höfðu áður verið tengdar að hálfu. Eldri borgarar urðu þannig fyrir umtalsvert meiri skerðingu á kjörum sínum en aðrir þjóðfélagshópar og hæstv. ríkisstjórn hefur lagt áherslu á það að hér sé allt á uppleið. Ef rétt reynist hlýtur að vera hægt að sýna með táknrænum hætti að svo sé og leiðrétta kjör lífeyrisþega.