141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

Þingvallavatn og Mývatn.

[10:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tel þessa tillögu hv. þingmanns skynsamlega og ég held að við ættum að gefa okkur góðan tíma í þessa umræðu, ekki síst í ljósi þess að Þingvellir eru á ábyrgð þingsins. Sú umræða á fyrir vikið mjög vel heima hér.

Ég tek líka undir það sem hv. þingmaður bendir á með að vöktunin dugar ekki ein og sér. Við þurfum líka að vita hlut hvers þáttar um sig í því ástandi sem kann að vera í farvatninu sem og að kortleggja hvaða inngripsheimildir eru fyrir hendi hjá stjórnvöldum á hverjum stað. Við erum að tala um mjög víðtækt og flókið samstarf við sveitarfélög, eigendur sumarbústaða o.s.frv. Það samtal er allt saman í gangi. Þingvallanefnd heldur mjög vel utan um þau samskipti en þau eru flókin og mjög víðtæk. Verðmætin eru þannig að ef við sitjum uppi með skaða sem er alvarlegri en svo að við verði ráðið verður ekki aftur snúið. Það er mjög alvarlegt mál þannig að ég tek undir þau sjónarmið hv. þingmanns að það sé rétt að ræða þetta frekar í þingsal.