141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

svört atvinnustarfsemi.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þá lýsingu sem hún var með hér í ræðustól á svartri atvinnustarfsemi og afleiðingum hennar tek ég sannarlega undir, þetta er mikil meinsemd í okkar samfélagi og hefur verið lengi. Ég minni á að ég hef tvívegis á síðustu 20 árum fengið gerða úttekt á undanskotum frá skatti. Það var í tíð Geirs Haardes sem fjármálaráðherra, þar var skilað mjög ítarlegri skýrslu um svarta atvinnustarfsemi og ýmsar tillögur settar þar fram til úrbóta. Sumar hafa komið til framkvæmda og sumar ekki og ég held að þá skýrslu ætti að skoða ítarlega og sjá hvort ekki sé þar eitthvað sem enn megi hrinda í framkvæmd. Það var mjög vel unnin skýrsla.

Ýmislegt hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að sporna við svartri atvinnustarfsemi og hefur fjármálaráðuneytið verið í samvinnu við atvinnulífið um það hvernig það verði best gert. Ein leiðin í því er til dæmis endurgreiðslan á virðisaukaskatti vegna viðhaldsverkefna sem ég tel að hafi gefist mjög vel, enda höfum við margframlengt það að slík heimild sé fyrir hendi. Ég tel líka að fjölga þurfi í skatteftirlitinu. Það hefur verið reiknað út að það skilar sér margfalt til baka ef fjölgað er í skatteftirlitinu til að taka á þessum málum.

Hv. þingmaður nefnir líka skatta á ferðaþjónustuna í þessu sambandi. Ég held að í þeim efnahagsþrengingum sem ríkisstjórnin hefur farið í gegnum og þær aðgerðir sem hún hefur farið í hafi hún haldið skynsamlega á að því er varðar bæði niðurskurð á útgjöldum og þær skattahækkanir sem óhjákvæmilega þurfti að fara í. Hún lagði þær á þá sem helst þyldu skattahækkanir og hlífði láglaunahópunum og síðan var farið í útflutningsgreinarnar sem hefðu helst hag af hagstæðu gengi.