141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

svört atvinnustarfsemi.

[11:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra segir að ýmislegt hafi verið gert til þess að vinna bug á þessu vandamáli og til að allrar sanngirni sé gætt getur vel verið að það sé rétt. Hins vegar er staðreyndin sú, eins og ríkisskattstjóri greindi frá í fjölmiðlum, að staðan í dag er þannig að undanskot hafa aldrei verið meiri og þar af leiðir að svarta hagkerfið, þeir einstaklingar sem taka þátt í hagkerfinu en greiða ekki til samneyslunnar, hefur aldrei verið stærra. Þetta er þrátt fyrir það að ýmislegt hafi verið gert.

Það eru nokkrar aðferðir til að taka á skattsvikum. Við getum farið í átak og barist fyrir hugarfarsbreytingu sem ég held að sé gott, við þurfum öll að huga að okkar þætti í þessu. Það eitt og sér er ekki nóg. Að auka eftirlit klárar heldur ekki eitt og sér verkið. Það þarf að minnka fjárhagslega ávinninginn af því að stinga undan skatti og það gerum við ekki, frú forseti, með því að hækka skatta, flækja skattkerfið og þrengja að fólki. Það gerum við með því að lækka skatta og einfalda skattkerfið.