141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:08]
Horfa

Jón Kr. Arnarson (Hr):

Frú forseti. Enn hafa umræður um beitarmál og lausagöngu komist í hámæli og nú í kjölfar myndar Herdísar Þorvaldsdóttur, Fjallkonan hrópar á vægð. Þegar málefni sauðfjárræktar og beitarmál eru rædd getur umræðan oft og tíðum orðið hatrömm og sitt sýnist hverjum. Sauðfjárrækt á sér langa sögu hér á landi og er mikilvæg í hinum dreifðu byggðum landsins. Vissulega er mynd Herdísar engin undantekning hvað það varðar að um hana hafa spunnist heitar umræður. Þá hafa Bændasamtökin sent frá sér myndband, Sauðfjárrækt í sátt við land og þjóð, sem litið er á sem nokkurs konar svar við mynd Herdísar.

Þrátt fyrir að þarna séu andstæð sjónarmið á lofti má einnig finna samhljóm í þessum myndum. Báðar ganga út frá því að vel gróið land og jarðvegur séu mikilvæg auðlind. Báðar segja frá því að þessi mikilvæga auðlind hafi eyðst hér á undanförnum öldum vegna rányrkju og ósjálfbærrar nýtingar. Báðar ganga út frá því að beitarstýring sé afar mikilvæg til að viðhalda landgæðum og að sjálfbær nýting eigi að vera regla. Báðar myndirnar benda á að ofbeit fyrri áratuga hafi verið óásættanleg, enda er það ljóst að beit er helsta ástæða skógar-, gróður- og landeyðingar hér á landi.

Það er þó rangt, sem er eitt megináhersluatriði myndar Bændasamtakanna, að nú sé fátt fé á Íslandi og að vandamál fyrri áratuga og alda séu úr sögunni. Vissulega hefur fé fækkað frá því sem mest var í lok áttunda áratugarins en í sögulegu samhengi er enn margt fé á landinu. Sauðfé fjölgaði verulega í upphafi 19. aldar en fjöldinn nú er svipaður og hann var að meðaltali á árunum 1920–1950 og á þessari rúmu öld, þegar sauðfjáreign var svipuð og nú, eyddust stór landsvæði vegna ofbeitar.

Virðulegi forseti. Um hvað snýst þá beit og sjálfbær landnýting? Til einföldunar má skipta landi í tvo meginflokka, annars vegar svæði sem hægt er að segja að séu í góðu eða sæmilegu ástandi og hins vegar þau svæði þar sem vistkerfið er einfaldlega hrunið. Þar sem ástandið er gott eða sæmilegt er unnt með skynsamlegri nýtingu að bæta gæði þeirra svæða þar sem ástandið gæti verið betra. Þar koma inn úrræði, svo sem ítala búfjár, uppgræðsla bænda samfara beit, og á þessum svæðum þarf að skipuleggja beit svo að hún verði í sátt við land og þjóð.

Hins vegar eru svæði sem einkennast af auðnum og miklu jarðvegsrofi. Slík svæði eru einfaldlega ekki hæf sem beitiland. Það liggja fyrir viðamikil gögn um þessi lönd. Hin merkilega skýrsla Jarðvegsrof á Íslandi inniheldur ítarlegar upplýsingar um jarðvegsrofið, útbreiðslu gróðurs og auðna og fleira fyrir öll afréttarsvæði landsins, sveitarfélög o.s.frv. Það liggur fyrir aðferðafræðin til að meta beitarástand landsins. Nytjalandsverkefnið hefur einnig unnið nákvæma þekju af helstu gróðurflokkum fyrir mestallt landið þannig að ítarlegar upplýsingar liggja fyrir um náttúruauð landsins og skort á honum þar sem svo hagar til. Þá liggja fyrir viðamiklar rannsóknir um eðli framvindu á landgræðslusvæðum, gerðar hafa verið umfangsmiklar beitartilraunir.

Hins vegar hefur vantað að þessum gögnum og þekkingu sé beitt til að laga landnýtinguna að ástandi þess. Gæðastýringin er merkileg tilraun í þá átt en því miður misheppnaðist hún. Í því sambandi má nefna ágætt viðtal við formann Landssamtaka sauðfjárbænda, Þórarin Inga Pétursson, í Bændablaðinu frá 18. apríl í vor þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vill virka gæðastýringu sem er ekki bara máttlaust plagg. — „Þurfum að geta gefið mönnum gula spjaldið til aðvörunar og rauða spjaldið ef þeir standa sig ekki.““

Virðulegi forseti. Það virðist vera samdóma álit flestra sem að málinu koma að landnýtingarþáttur gæðastýringarinnar hafi verið góð tilraun sem hefur ekki gengið upp. Með því að nýta auðnir og rofasvæði er verið að leggja að jöfnu afrétti sem annars vegar eru nánast algrónir en hins vegar með aðeins 1–20% gróðurþekju. Það er himinn og haf milli eðlis þessara svæða, í raun er það grafalvarlegt mál að slík nýting á auðnum og rofasvæðum skuli vera studd af skattborgurum landsins með beingreiðslum til bænda. Á hitt ber einnig að líta að lítill hluti fjár landsmanna, kannski 10%, gengur á þessum svæðum og það eru í rauninni ekki margir bændur sem þurfa að treysta á beit á þessu svæði. Því er vitaskuld gerlegt að stöðva þessa beit en jafnframt að finna sanngjarna úrlausn fyrir þá bændur sem nú reka á þessa afrétti. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að beita sér fyrir slíkum lausnum.

Mörg af helstu afréttarsvæðum sem nú eru auðnir voru sannarlega vaxin skógi á öldum áður. Öll þessi svæði er hægt að endurheimta en það tekur tíma þar sem tímaskalinn telur marga áratugi eftir því hvað inngrip er mikið, svo sem með áburðargjöf.

Virðulegi forseti. Með því að friða ekki þessi svæði er þeim viðhaldið í versta mögulega ástandi. Þau fá ekkert tækifæri til að gróa upp og mynda frjósöm vistkerfi sem afkomendur geta nýtt á tímum þegar stöðugt verður krafist aukins fæðuframboðs. Þeir tímar munu eflaust koma að auka þarf fæðuframleiðslu á Íslandi til muna og þá þarf að vera búið að byggja upp íslenskt vistkerfi. Okkur nútímamönnum ber beinlínis (Forseti hringir.) skylda til að stöðva þessa beit og hefja uppbyggingu vistkerfa á verst förnu afréttarsvæðum landsins fyrir aldir og óborna.