141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:14]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þessarar umræðu þakka hv. þingmanni frumkvæðið að því að taka málin hér til umræðu út frá þessum víða sjónarhóli sem hann leggur upp í sinni framsögu. Ég tek heils hugar undir þau orð hans að það er mjög mikilvægt að koma þessum málum öllum saman í skikkanlegan og uppbyggilegan farveg.

Svo ég byrji á því sem stendur fyrir dyrum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sem varðar beinlínis þessi mál, þá er það tvennt. Annars vegar hefur farið fram heildarendurskoðun á lögum um landgræðslu en sú lagasetning er frá 1965. Lögin eru þess eðlis að þau endurspegla ekki með nokkru móti starfsumhverfi eða starfsvettvang landgræðslustarfs eða Landgræðslunnar eins og hún starfar í dag. Greinargerð nefndar sem fjallaði um þessi mál liggur fyrir og hún hefur verið í kynningu og næstu skref eru síðan að vinna úr þeirri skýrslu. Það er meðal annars til þess að koma böndum yfir nákvæmlega þau mál sem hv. þingmaður nefnir í ræðu sinni.

Hitt er að sett hefur verið á stofn sérstök samstarfsnefnd umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um beitarstjórnun og sjálfbæra landnýtingu. Sú nefnd fékk skamman og snarpan tíma til að skila af sér og á að skila tillögum til okkar, þessara tveggja ráðherra, 1. desember nú í vetur. Þessi nefnd starfar af miklum krafti og það er hlutverk hennar að fara yfir stjórn búfjárbeitar í landinu með tilliti til gróðurverndar og sjálfbærrar landnýtingar og vinna tillögur til okkar ráðherranna, þar sem löggjöfin heyrir jú undir þessi tvö ráðuneyti, með það að markmiði að efla stjórn búfjárbeitar með tilliti til gróður- og jarðvegsverndar, ágangs búfjár og sjálfbærrar þróunar, sjálfbærrar landnýtingar og samhæfa aðgerðir ráðuneytanna á þessum sviðum.

Það er mikilvægt í þessari umræðu að halda því til haga að sauðfjárræktin eins og hún er stunduð á Íslandi í dag tekur ekki öll þátt í gæðastýringunni. Þess vegna þurfa ný lög um landgræðslu að hafa mjög skýr ákvæði sem taka á vandamálum ofbeitar. Eins og hv. þingmaður nefndi í framsögu sinni hefur skort á að nægilega skýrar heimildir væru fyrir hendi. Úrræðin eru í raun og veru fullnýtt eins og löggjöfin heimilar í reglugerð um framleiðslu búfjárafurða og það sem okkur skortir eru sterkari viðmið um það hvað telst sjálfbær landnýting á Íslandi. Við þurfum að vita hvað það er. Í því efni þarf þekkingu og samanburð á ólíkum svæðum og samanburð á ólíkri stöðu þeirra svæða sem um ræðir því að ástand landsins er mjög mismunandi eftir landsvæðum og ágangur búfjár sömuleiðis.

Það þarf að velta því upp, og ég held að rétt sé að gera það í þessari umræðu, hvort ekki sé rétt að koma á þeirri meginreglu að eigendur beri ábyrgð á fullri vörslu á sínum fénaði og svo sé heimilt að víkja frá því að uppfylltum tilteknum skilyrðum, þ.e. að snúa við 6. gr. laga um búfjárhald, úr heimildarákvæði yfir í orðalagið sem ég nefndi hér. Það er spurning um slíka nálgun, en slík nálgun þarf að eiga sér stað í verulegu samráði og skoðun á málunum. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni hefur umræðan verið töluverð hjá sauðfjárbændum.

Við þurfum líka að halda því til haga að beit fleiri grasbíta kemur hér inn í, við þurfum líka að ræða um hrossabeitina og áhrif hennar. Eins og ég nefndi hér áðan er óhjákvæmilegt að taka tillit til ólíkrar stöðu landshlutanna. Og svo við höldum því til haga er ekki allt svo slæmt eins og sumir hafa kannski viljað draga upp, land grær meira en það eyðist nú um stundir. Það gerir það, það grær meira en eyðist.

Upphaf skipulags gróðurverndar og landgræðslustarfs á Íslandi má rekja allt til ársins 1907 og unnið hefur verið mjög mikilvægt landbótastarf. Sauðfé hefur fækkað frá því sem mest var og stór landflæmi hafa aukinheldur verið friðuð fyrir beit, auk þess sem vitund bænda fer vaxandi. Ég vil trúa því að í grunninn þyki bændum vænt um landið og að saman fari hagsmunir þeirra sem vilja standa vörð um gæði jarðvegs og gróðurs og þeirra sem vilja nýta það í þágu búskapar.