141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Eins og flestir hér inni vita hefur mikil umræða verið um þessi mál að undanförnu í kjölfar myndar sem sýnd var í ríkissjónvarpinu. Það er ágætt að þessi umræða sé komin hingað inn í salina þannig að við getum áttað okkur á því hvað er í raun við að eiga.

Mikið landrof hefur verið á Íslandi og jarðvegseyðing. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar miðað við niðurstöður rannsókna. Náttúruhamfarir, veðurfarssveiflur, búfjárbeit og önnur landnýting eiga öll sinn þátt í því miðað við þær rannsóknir sem fyrir liggja. Meðal annars eru vísbendingar um að kuldaskeiðið á árunum 1780–1920 hafi haft verulega neikvæð áhrif á gróðurfar.

Mikilvægt er að horfa á stöðuna eins og hún er í dag og horfa á þá þætti sem við getum reynt að stjórna. Hreindýrum hefur fjölgað, álftum og gæsum hefur fjölgað verulega og allir bændur þekkja þann ágang sem er sérstaklega af álftinni á land þeirra. (Gripið fram í.) Fjöldi ferðamanna hefur jafnframt áttfaldast frá 1980 og svo eru það eldgosin — það er gott að menn eru málefnalegir hérna, hv. þm. Mörður Árnason — sem hafa áhrif á gróðurfar eins og við þekkjum. Við sem erum alin upp í Rangárvallasýslu þekkjum hvaða áhrif Hekla hefur haft á landið þar. Það er ekki sauðfé sem hefur verið okkar versti óvinur þar heldur þau efni sem þar hafa komið upp. Það er veruleg þörf á miklu fjármagni til viðbótar í landgræðslu.

Það er ekki bara sauðkindinni um að kenna að jarðvegsrof hefur orðið hér á landi eins og sumir þingmenn virðast telja heldur þurfum við að horfa á alla þá þætti sem við er að eiga. Það er heldur ekki nóg að friða landsvæði. Það þarf að gera áætlun um það hvað á að gera í þeirri friðun. Horfum til dæmis á afrétt í Rangárvallasýslu, það gengur ekki að friða Emstrurnar í 30 ár og grípa ekki til (Forseti hringir.) neinna aðgerða til að bæta þá gróðurþekju sem þar er stöðugt að eyðast.