141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:22]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í þessu máli gildir, eins og ævinlega á að vera, að við verðum að taka almannahag fram yfir sérhagsmuni. Tæpur fjórðungur hugsanlegs beitarlands á Íslandi, fyrir utan jökla, fjöll, ár og vötn, telst vera verulegt rofsvæði, mikið rof eða mjög mikið rof í niðurstöðum RALA og Landgræðslu ríkisins í könnunum um jarðvegsrof á Íslandi sem má sjá á upplýsingavefnum Kvasir á rala.is/kvasir. Þar er mælt með algerri friðun fyrir beit á þessum svæðum, fjórðungi lands. Tæp 30% lands telst búa við talsvert rof og mælt með því að dregið sé úr beit og hún lúti strangri stjórn. Samtals yfir helmingur þess lands sem hér kemur til álita einkennist af rofi, uppblæstri og moldroki. Landið fýkur burt, eins og Ríó tríó söng í gamla daga.

Það er hverju orði sannara hjá talsmönnum núverandi búfjárbeitar að eldgos og óveður og gegndarlaust skógarhögg fyrstu aldir Íslandsbyggðar hafa átt mikinn þátt í uppblæstri á Íslandi. Hins vegar er það rangt hjá þeim að í hugmyndum um beitarstjórn til að hefta uppblástur og klæða landið heimagróðri á nýjan leik felist einhver andúð á bændum eða hatur á sauðfé. Með leyfi forseta: „Þér hrútar, ég kveð yður kvæði./Ég kannast við andlitin glöð,“ orti Guðmundur Ingi.

Staðreyndin er sú að búfé hefur verið beitt ótæpilega á viðkvæm svæði áratugum og öldum saman og nú er kominn tími til að breyta skipulaginu. Þær rannsóknarniðurstöður sem fyrir liggja staðfesta því miður málflutning áhugamanna og skeleggra baráttumanna á borð við Herdísi Þorvaldsdóttur.

Við hv. þm. Birgitta Jónsdóttir höfum brugðist við síðasta ákalli Herdísar með sérstöku frumvarpi um að framvegis verði búfé aðeins beitt innan girðingar og gefin tíu ár í frumvarpinu til að svo megi verða. Vel má auðvitað hugsa sér að meðfram girðingum sé gert ráð fyrir staðfastri beitarstjórn eins og hér er talað um á þeim svæðum sem eru í sæmilegu standi. En það er löngu kominn tími til aðgerða, forseti. Landið okkar þolir ekki meira hálfkák.