141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:30]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er brýn. Gróðureyðing er alvarlegt mál og er afleiðing ofbeitar fremur en annars. Þetta vita allir sem til þekkja og þó að eldgos valdi vissulega miklum skaða er hann oftar en ekki tímabundinn og land grær aftur að loknum eldgosum. Það er löngu kominn tími til að taka á þessum málum. Það þarf að beitarstýra á landi sem þolir beit en það þarf að stöðva alfarið beit á landi sem vitað er að þolir ekki ágang búfjár. Það er vitað hvar þessi landsvæði eru og hvað má gera en það hefur einfaldlega ekki verið nóg gert í málunum.

Sauðkindin er sennilega merkasta skepna þessa lands, að mönnunum meðtöldum, og á svo sannarlega skilið sinn sess og sitt pláss í landinu. Það má hins vegar ekki ganga of langt og það má ekki leyfa lausagöngu búfjár með þeim hætti sem nú er gert. Hér þarf ekki stórfelldar eða róttækar breytingar, heldur fyrst og fremst ásetning til að verja land sem vitað er að þolir ekki beit. Það er leitt að heyra að sumir þingmenn virðast halda að hér sé um að ræða árásir á bændur og sauðkindina. Því fer fjarri. Hér er einfaldlega á ferðinni tilraun til að vekja athygli á mjög alvarlegu vandamáli sem þarf að leysa og er í rauninni ekkert stórmál að leysa. Menn þurfa fyrst og fremst að viðurkenna vandamálið og taka höndum saman um að laga það. Hér eiga allir mjög auðveldlega að geta lagst á eitt um að gera það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)