141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:32]
Horfa

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir (Vg):

Frú forseti. Á Íslandi er löng hefð fyrir sauðfjárrækt, hún hefur fylgt okkur allt frá landnámi. Á þessu ári telur stofninn um 475 þús. dýr en hann hefur minnkað um 45% á 35 árum þegar stofninn taldi um 900 þús. dýr. Sauðfjárræktarbú á landinu eru um 2 þúsund og 91% þeirra tekur þátt í gæðastýringu. Stór hluti gæðastýringar felst í því að bæði land bóndans og afréttur sé nýttur samkvæmt reglum um beit og beitarskipulag sem Landgræðslan sér um að fylgja eftir. Fari bændur eftir því fá þeir vottun sem gefur þeim hærra afurðaverð og hefur þessi stýring, að því er ég tel, skipt miklu máli þegar kemur að landgræðslu með bændum.

Þessi stýring hefur auk minnkaðs álags á land skilað verulegum árangri en í skýrslu Náttúrufræðistofnunar frá árinu 2011 kemur fram að mikil framför er í ræktun á grænum lífmassa. Þar er Vesturland í mestri sókn með stærsta svæði græns lífmassa á sama tíma og stærstur hluti sauðfjárstofns okkar Íslendinga er á þessu svæði, um 50%.

Að auki verður að taka fleiri þætti inn í þegar kemur að beitarstýringu, eins og hross sem eru tennt í báðum gómum og geta þar af leiðandi gengið nær landinu en sauðkindin sem er með bitþófa í efri góm. Einnig er ágangur fugla orðinn vandamál sem þarf að ræða, gæsir og álftir fara illa með beitarland þar sem þær rífa gróður upp með rótum. Ég er til dæmis alin upp á bæ þar sem mikið var af melum fyrir einum 20–30 árum en nú eru þessir melar að mestu gróið land vegna landgræðslu og beitarstýringar þrátt fyrir að bæði hestum og sauðfé sé beitt á þetta svæði.

Ég fagna því samstarfi sem hefur átt sér stað á milli bænda og Landgræðslunnar og þeim árangri sem hefur náðst í landgræðslu þar sem unnið er með bændum. Við erum á réttri leið þrátt fyrir að auðvitað séu enn dæmi um að beitarstýring sé ekki rétt og enn sé vissulega hægt að gera betur. Við megum að sjálfsögðu ekki sofna á verðinum. Vissulega þarf að huga að viðkvæmum landsvæðum en með því samhenta átaki sem komið er af stað (Forseti hringir.) hef ég ekki miklar áhyggjur af þessum málaflokki. Ég óska Landgræðslunni, bændum og þjóðinni í heild til hamingju með þann árangur sem hefur náðst (Forseti hringir.) og hvet til áframhaldandi vinnu á þeirri braut sem við erum nú á.