141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:37]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er afar þörf og maður fer að velta fyrir sér hvort rammaáætlanir þurfi ekki að vera í ýmsum málum, eins og hvernig við verndum og nýtum land. Það sem mér finnst skipta máli hér er að orðræðan sé varfærnisleg og að ekki komi til einhver dæmandi orð sem tali til dæmis um almannahagsmuni og sérhagsmuni. Mér finnst það ekki við hæfi hér. Það sem skiptir máli er að aðilar þessa máls ræði saman. Ég er sannfærð um að báðir aðilar vilja vanda sig og ég legg áherslu á að það gæðastýringarkerfi sem bændur eru að koma sér upp er að sjálfsögðu í þróun. Ég sá til dæmis á heimasíðu Bændasamtakanna áðan auglýst námskeið í næsta mánuði þar sem menn eru að reyna að koma þessu gæðastýringarkerfi á, enda skiptir það þá verulegu máli efnahagslega að ná gæðavottun á afurðir sínar. Auðvitað eru landnýtingarmálin flóknust í því ferli en gerum ekki lítið úr þessu gæðastýringarkerfi, það skiptir mjög miklu máli.

Bændur vilja sjálfbæra nýtingu á landi og við megum ekki gleyma því að afurðir þær sem koma af sauðkindinni, kjötið, skinnið og ullin, skipta okkur og menningu okkar afar miklu máli. Við verðum líka að skilja að vitanlega koma öðruvísi afurðir af skepnum sem ganga til dæmis á ábornum túnum eða af skepnum sem ganga á melum og móum. Að sjálfsögðu þarf að gera þetta allt saman í sátt við náttúruna. Ég skil ekki alveg af hverju þessi umræða þarf að vera svona beitt vegna þess að allir vilja vanda sig, allir vilja gera vel. Hvaða bóndi vill ofbeita sitt land eða sinn afrétt? Ég þekki engan.