141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru kallaði hæstv. utanríkisráðherra þann er hér stendur lambhrút. [Hlátur í þingsal.] Ég veit ekki hvort ég telst þá vanhæfur í þessari umfjöllun. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Þetta eru sérhagsmunir, já. Að öllu gamni slepptu er mjög mikilvægt að hófs sé gætt í þeirri mikilvægu umræðu sem hér fer fram. Það skiptir máli að við séum ekki með ásakanir um sérhagsmuni gegn almannahagsmunum, að það séu einhver átök þar á milli. Það má líka vel færa fyrir því rök að það sem bændur eru að gera hvern einasta dag sé einmitt að gæta almannahagsmuna, þ.e. framleiða matvæli fyrir Íslendinga, ódýr matvæli sem tryggja að við spörum gjaldeyri o.s.frv.

Það þarf ekki að fara langt í þessa umræðu, ég þekki það úr minni sveit að þar eru mjög grösug tún og líka svartir sandar og melar sem bændur hafa tekið mikinn þátt í að græða upp. Bændur hafa sýnt gríðarlegt frumkvæði í því að græða upp til dæmis þá svörtu sanda sem liggja frá Sauðárkróki og yfir að Hofsósi eða yfir Hegranes og yfir í Austurvötnin, eins og við segjum. Þeir hafa sýnt mikið frumkvæði þar.

Mér þótti vænt um það þegar hæstv. ráðherra sagði áðan að bændum þætti vænt um landið. Það er nákvæmlega þannig sem bændur hugsa. Þeir lifa af landinu og þeim þykir vænt um það. Það er því þeirra hagur að vel sé gengið um það og ég veit að þannig eru langflestir bændur. En auðvitað eru í þessari stétt eins og öllum öðrum starfsstéttum landsins inn á milli svartir sauðir svo maður noti nú bara það orðalag [Hlátur í þingsal.] og á því verður að sjálfsögðu að taka. Það á enginn að sleppa með það að brjóta lög eða fara gegn þessum miklu hagsmunum.

Þegar á heildina er litið fara einmitt saman hagsmunir bænda og þeirra sem vilja vernda landið. Þegar upp er staðið hagnast báðir aðilar á þessu. Því þakka ég málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu og hvet þingmenn og ráðherra til að gæta hófs og sýna samstöðu þegar farið verður (Forseti hringir.) að vinna frekar í þessu máli.