141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

beitarþol, landgræðsla og lausaganga búfjár.

[11:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir afar góða og gagnlega umræðu um þetta viðfangsefni. Þrátt fyrir ýmsar heitingar um að menn eigi að gæta orða sinna hef ég ekki orðið vör við annað en að menn hafi einmitt gert það í þessari umræðu sem er til fyrirmyndar.

Hér alveg að lokum vil ég fullvissa þingmenn sem nokkrir hafa beint til mín orðum sínum sérstaklega, sérstaklega hv. þm. Atla Gíslason, um að samstarfsnefnd umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sem núna er að störfum er að fjalla sérstaklega um beitarstjórn og sjálfbæra nýtingu með það að markmiði að fara yfir stjórn beitarstýringar í dag með tilliti til gróðurverndar og sjálfbærrar nýtingar, þ.e. þá heildarsýn sem við þurfum að hafa. (Gripið fram í.) Sú vinna er í gangi og þessi hópur skilar af sér 1. desember og jafnframt erum við að tala um endurskoðun á lögunum um landgræðslu. Ég vonast til að þessu verði hægt að steypa saman þannig að þingheimur sjái þess stað á yfirstandandi þingi.

Ég árétta hins vegar að það þarf að undirstrika það að koma þarf á þeirri meginreglu að eigendur beri ábyrgð á sínu fé. Það er gríðarlega mikilvægt og það vilja bændur í meginatriðum, tel ég. Það eru skussar innan um og saman við í þeirri stétt eins og alls staðar annars staðar og beit á auðnir og illa farið land, þar með talin rof og opin rofabörð, er óþolandi og á ekki að líðast. Ég tel að hvorki við hér, Landgræðsla ríkisins, Bændasamtökin né nokkur einasti bóndi eigi að þola það. Þar eigum við að vera samtaka. Svo vil ég loks þakka fyrir góða og yfirgripsmikla umræðu.