141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[11:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um að taka mál á dagskrá með afbrigðum. Almennt séð er Hreyfingin ekki samþykk því. Hér er hins vegar verið að keyra í gegn mjög brýnt mál á miklum hraða og höfum við því lagt fram breytingartillögu við það mál til að reyna að koma því í betri farveg.

Vandræðagangurinn á þessu máli er með ólíkindum. Fella á brott grein um hljóðritanir ríkisstjórnarfunda sem sett var inn á sínum tíma til að ná sátt um málið í allsherjarnefnd og afgreiða það frá þinginu. Málinu hefur að stórum hluta verið fjarstýrt úr forsætisráðuneytinu þó að formaður allsherjarnefndar á sínum tíma, hv. þm. Róbert Marshall, hafi unnið þrekvirki í því að breyta þeim málum til batnaðar.

Málið var sent til umsagnar hjá allsherjarnefnd og segir í umsögn allsherjarnefndar að nefndin sjái sér því ekki fært að fjalla um málið á þann hátt sem hún hefði kosið þannig að það er órætt. Við munum því leggja fram breytingartillögu við málið á eftir til að reyna að gera það betra. Ég vona bara að þingheimur taki undir þá breytingartillögu því að hún er í samræmi við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.