141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:43]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir ræðu hans. Hann kom víða við eins og við var að búast vegna þess að hann hefur einlæga sannfæringu fyrir því að hljóðrita skuli ríkisstjórnarfundi og berum við þingmenn virðingu fyrir skoðunum hvor annars.

En það var svolítið merkilegt að heyra hann upplýsa að hann hafi orðið fyrir barðinu á pólitískum skollaleik og hann sé viðvaningur á þessu löggjafarsviði og hvernig hin pólitísku kaup gerast á eyrinni eða í þinghúsinu, skulum við segja. En það er gott hjá hv. þm. Þráni Bertelssyni sem gekk til liðs við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að finna það í fyrsta lagi á eigin skinni hvernig Vinstri grænir vinna og í öðru lagi að verða fyrir barðinu á þeim. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina.

Hv. þingmaður situr í allsherjar- og menntamálanefnd og gerði tillögu um það sjálfur að nefndin mundi fá tækifæri til að skila umsögn um málið. Mig langar því að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi hvort erindið hafi verið tekið fyrir á fundi í allsherjar- og menntamálanefnd og í öðru lagi hvort þingmaðurinn hafi ekki barist fyrir því að nefndin mundi skila umsögn fyrst þetta var ósk hans sjálfs.