141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[13:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að blanda mér stuttlega í þessa umræðu. Ég hafði ekki tök á því að vera viðstödd 1. umr., en ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hef fylgst með málinu frá því að það kom fyrst fram í gömlu allsherjarnefndinni.

Mig langar í fyrsta lagi að ítreka afstöðu okkar sjálfstæðismanna í þessu máli, en hún hefur reyndar legið fyrir allan tímann. Það var ljóst frá upphafi að sú aðferð sem var boðuð í frumvarpinu, að hljóðrita ríkisstjórnarfundi, var ekki möguleg, hún gekk ekki upp vegna þeirra annmarka sem á henni voru. Og ef við segjum það hreint út þá lá alltaf fyrir að ef hún yrði að veruleika mundu menn haga ákvarðanatöku á ríkisstjórnarfundum öðruvísi. Það er staðreynd málsins. Á þetta var bent strax í upphafi þegar málið var til umræðu í allsherjarnefnd. Það kom þannig inn í meðförum nefndarinnar að ekki var búið að undirbúa það á þann hátt sem ég hefði haldið að væri nauðsynlegt til að fá fram þessi sjónarmið, en síðan þegar tíminn leið komu þau auðvitað fram og fjöldamargir sérfræðingar höfðu áhyggjur af því að ekki væri hægt að gera þetta.

En hitt er annað mál, og það er kannski það sem ég vildi koma inn á, að hér inni eru þingmenn sem börðust mjög fyrir þessu. Mér þykir eiginlega miður þeirra vegna að svona skuli hafa verið gengið fram, að þeir sem bera ábyrgð á málinu hafi ekki gengið hreint til verks og skýrt frá því að þessi tillaga yrði aldrei að veruleika. Mér þykir það miður gagnvart þeim þingmönnum sem börðust fyrir málinu í allsherjarnefnd að þessi tími hafi liðið og menn hafi haldið málinu á floti vitandi það í meiri hlutanum að það yrði aldrei að veruleika. Mér finnst þau vinnubrögð, virðulegi forseti, afar ámælisverð. Mér finnst hreinlega leitt, þar sem hér er um að ræða starf nefndar í þinginu, að þannig hafi málinu undið fram.

Ég vil samt mótmæla því þegar sagt er að við sem höfum haft áhyggjur af málinu, talið að það væri ekki tækt til afgreiðslu, aðhyllumst einhverja leyndarhyggju. Ef menn vilja ná fram breytingum á vinnubrögðum verður að gera það þannig að breytingarnar skili árangri. Í þessu tilviki var tillagan þannig að vinnubrögðum við ákvarðanatöku hefði væntanlega verið breytt. Á það bentu þeir sem gerðu athugasemdir við tillöguna.

Ég vil líka nefna eitt vegna vinnunnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, reyndar líka vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ábendinga sem þar koma fram og í þingmannaskýrslunni. Þá þingsályktun samþykktum við þingmenn allir, við köllum hana gjarnan 63:0-málið, og í henni eru fjöldamörg atriði sem þingið bað um að unnið yrði að. Það mál er enn þá til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við erum ekki búin að klára það eða afgreiða og fjöldamargar ábendingar sem þingmannanefndin gerði hafa í raun og veru ekki verið afgreiddar í þinginu. Ég vil því nota tækifærið til að segja að við höfum rætt þetta mál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, við viljum klára það og vilji stendur til þess að gera það vel. Ég vil segja fyrir mína hönd að ég legg mikla áherslu á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ljúki þeirri vinnu þannig að hægt sé að leggja það fyrir þingið. Þar eru fjöldamörg atriði sem áttu að horfa til framfara hvað vinnubrögð varðar. Það stendur auðvitað upp á þetta þing sem nú situr að ljúka þeirri vinnu sem hafin var með þingmannaskýrslunni. Ég veit að allir fulltrúar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd deila þeirri skoðun að ljúka eigi því máli.