141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[14:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við munum samþykkja það að veita þessi afbrigði í samræmi við atkvæðagreiðslu fyrr í dag enda er það svo, ég vil árétta það, að það helgast af því að við vorum allan tímann á móti því að farin yrði þessi leið, að hljóðupptökur yrðu af ríkisstjórnarfundum. Því gerum við í sjálfu sér ekki athugasemd við það að þetta frumvarp gangi fram. En ég vil ítreka og árétta að vondur bragur er á þessu máli. Það er verið að hlaupa með málið í gegnum þingið á miklum hraða.

Ég skil vel yfirlýsingar sem hér hafa komið fram meðal annars frá hv. þm. Þór Saari um vonbrigði hans vegna þess samkomulags sem hann taldi sig hafa gert við meiri hlutann á þinginu um málsmeðferðina og hvernig þessu máli skyldi hagað sem síðan hefur ekki verið staðið við. Ég get líka skilið að það hljóti að valda vonbrigðum þegar um það var talað að lagt yrði fram álit frá allsherjar- og menntamálanefnd þannig að það kæmi til umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en ekki var hægt að standa við það vegna tímaskorts, þannig að allur bragur á þessu máli er auðvitað ekki góður. Því miður er það svo að það þarf að klára þetta í dag og þess vegna veitum við þessi afbrigði. En allt þetta mál er svolítið til umhugsunar fyrir okkur þingmenn, hvernig að þessu er staðið.