141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[14:26]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Svo sannarlega hefur það verið óheppilegt að við höfum ekki haft tök á að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis síðustu ár í þingsal og ég held að það sé mjög brýnt að við komum þessu í fastara form. Ég veit að það er vilji allra nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við höfum að sjálfsögðu fjallað um þessi mál á vettvangi nefndarinnar og við stöndum sameiginlega að nefndarálitinu en til þess að umræða um skýrslu umboðsmanns og störf hans skipti raunverulegu máli hvað vinnubrögð varðar og til að bæta hlutina held ég að mikilvægt sé að skýrslan sé rædd reglulega í þinginu. Það er leiðinlegt að að við höfum ekki haft tök á því að gera það síðustu ár.

Eins verð ég að segja að það væri líka mjög gleðilegt ef fleiri þingmenn en við sem sitjum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mundu líta til þeirrar vinnu sem umboðsmaður innir af hendi og þeirrar miklu skýrslu sem hann skilar af sér. Þetta vildi ég segja svona almennt út af þessu máli. Í skýrslunni koma fram ábendingar sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir gerði sérstaklega að umtalsefni fyrir árið 2010. Þær varða það hvað fólk kvartar mikið undan málsmeðferðarreglum. Ég velti því fyrir mér hvort við í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og í þinginu getum á einhvern hátt náð betri árangri við að koma þeim sjónarmiðum og ábendingum sem fram koma í skýrslu umboðsmanns betur til skila en við gerum með þessari umfjöllun og umræðu hér þótt hún sé góðra gjalda verð. Getum við með einhverjum hætti varpað skýrara ljósi á allar þær miklu og fínu ábendingar sem þar koma fram?

Mig langar líka svona rétt í lokin til að spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sérstaklega út í þann þátt sem varðar meinbugi á lögum. Sér hún fyrir sér að við getum einhvern veginn á vettvangi nefndarinnar haft meiri áhrif (Forseti hringir.) á þær ábendingar sem umboðsmaður hefur og jafnvel meiri frumkvæðisskyldu þegar kemur að þeim ábendingum sem felast í skýrslu umboðsmanns?