141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Ólöfu Nordal um að leggja þarf meiri áherslu á að skýrsla umboðsmanns komi til umræðu í þingsal. Kannski er skýringin á því að hér eru ekki margir í dag að þetta er skýrsla fyrir árið 2010. Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2011 barst í hólf þingmanna í morgun. Við munum halda fund með umboðsmanni þann 1. nóvember og ég mun leggja gífurlega áherslu á að nefndarálit komi sem fyrst eftir það þannig að hægt verði að taka málið til umræðu í þingsal á meðan það er nýtt og nær okkur í tíma.

Ég er alveg sammála því að við þurfum að huga að því hvort þingið og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geti beitt sér betur til þess að málsmeðferðar reglum sé hlýtt. Ég vil sérstaklega taka undir það sem umboðsmaður tekur fram í áliti sínu að þetta eru lágmarksreglur. Þess vegna finnst mér mjög skrýtið að það komi svona mikið af kvörtunum. Það bannar náttúrlega enginn að þetta sé gert betur. Þetta eru lágmarksreglur og samt berast allar þessar kvartanir. Mér finnst það ekki nógu gott.

Hvað varðar meinbugi á lögum þá var þar getið um þrjú atriði og eitt atriði er varðar tollkvóta. Það var gleðiefni að mælt var fyrir máli í gær einmitt um það mál þar sem er tekið á þessum ábendingum umboðsmanns og það leiðrétt sem aflaga hafði farið.

Síðan er stjórnsýsla Íslandsstofu. Við fengum utanríkisráðuneytið á okkar fund í morgun þar (Forseti hringir.) sem fjallað er um stjórnsýslu Íslandsstofu. Nú er tíminn á þrotum, kannski að hv. þingmaður spyrji mig um eitthvað meira svo ég geti klárað þetta svar.