141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[14:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar og fagna því að þingmaðurinn er sammála mér að hér þurfi að koma upp einhvers konar lagaskrifstofu við þingið, ég minnist þess einmitt í ræðum hans þegar það mál hefur komið á dagskrá.

Mér er raunverulega alveg sama hvað apparatið verður látið heita eða í hvaða formi það verður. Sumir telja að það væri gott að koma upp stofnun við þingið sem færi yfir lög og hefði líka nokkurs konar fjáreftirlitshlutverk vegna þess að hér er svo oft lögð fram frumvörp sem hafa áhrif á tekju- eða skuldastöðu ríkissjóðs. Ég er alveg opin fyrir því svo framarlega að þessi stofnun verði sett á fót við Alþingi. Það er ólíðandi að þannig sé málum ekki skipað og það er jafnframt ólíðandi að þegar þessar hugmyndir komust á flug eftir að ég tók sæti á þingi að stofnuð hafi verið lagaskrifstofa við forsætisráðuneytið. Hvað hefur breyst við stofnun hennar? Ekki nokkur hlutur. Og enn er verið að dæma lög sem koma frá Alþingi ólögleg í Hæstarétti.

Ég tel að kostnaður við lagaskrifstofu við þingið verði ekki svo mikill þegar fram í sækir, miðað við þann sparnað sem kemur á móti. Nú fer gríðarlegur kostnaður og tími í öll þau mál sem eru fyrir dómstólum og hjá umboðsmanni Alþingis, þau eru þangað komin vegna óskýrrar og óvandaðrar lagasetningar Alþingis. Hliðaráhrifin af því að hafa svona stofnun við Alþingi valda því að hún mun borga sig upp á örskömmum tíma, svo við tölum nú ekki um þann andlega kostnað sem einstaklingar (Forseti hringir.) úti í samfélaginu verða fyrir við það eitt að þurfa að fara í dómsmál.

Varðandi óræddar skýrslur (Forseti hringir.) verð ég að koma að þeim í seinna andsvari.