141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[15:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef nú í andsvörum við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur nefnt tvö af þeim atriðum sem ég ætlaði að nefna í ræðu minni. Mér finnst það annars vegar fagnaðarefni að við fáum tækifæri til að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis hér í þingsal. Það er leitt og raunar óskiljanlegt að það skuli ekki hafa tekist í heilt kjörtímabil. Á árum áður var það reglulegur liður í störfum þingsins að skýrslur umboðsmanns og reyndar Ríkisendurskoðunar líka voru ræddar en frá hausti 2008 hefur það ekki tekist. Veturinn 2008–2009 voru hugsanlega fyrir því skiljanlegar ástæður vegna þeirra mjög svo óvenjulegu aðstæðna sem þá voru uppi, sem eðlilega höfðu áhrif á störf þingsins, en fyrir hin árin sem síðan eru liðin er það mjög sérkennilegt.

En hafandi sagt þetta þá ber að fagna því að á þessu hefur orðið breyting og við ræðum nú í dag skýrslu umboðsmanns fyrir árið 2010. Undir eru líka þrjár eldri skýrslur og síðan hefur þinginu borist skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2011 sem, eins og fram hefur komið í umræðum, verður tekin fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í næstu viku og fljótlega gefst kostur á að ræða hana hér í þinginu. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og bent á að auðvitað er meira líf í því að ræða nýjustu skýrsluna frekar en það sem er orðið að sögulegum gögnum ef svo má segja, þó að vissulega séu það merkileg skrif og geti haft gildi við skýringu stjórnsýslureglna og laga á þessu sviði. Nóg um það.

Hitt atriðið sem ég ætla að ítreka hér áfram er það að ég held að við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir séum sammála um að mikilvægt sé að efla þá aðstoð eða þann styrk sem skrifstofa þingsins getur veitt þinginu eða þingmönnum í sambandi við lagalegan frágang og lagalega þætti, hvaða leið nákvæmlega verður valin í þeim efnum. Í mínum huga skiptir ekki máli hvort það er kallað lagaskrifstofa Alþingis eða eitthvað annað en ég tel mikilvægt að hugað sé að þessu og að þetta verði eflt. Ég held að þeim fjárveitingum sem varið yrði til þessara verkefna væri vel varið. Þar yrði einfaldlega um það að ræða að þinginu yrði gert fært að sinna verkefnum sínum betur en verið hefur. Nóg um það.

Það voru nokkur einstök atriði sem ég ætlaði að drepa á í þessari stuttu ræðu. Þau snerta kannski ekki starfsemi umboðsmanns á einhverjum tilteknum tímabilum eða einhver tiltekin mál í hans skýrslum heldur eru með almennari blæ. Ég ætla þó að nefna að í skýrslunni fyrir árið 2010 fjallar umboðsmaður töluvert um að afgreiðslutími erinda sem honum berast hafi lengst. Málum sem berast til embættis umboðsmanns hefur fjölgað og þeim er enn að fjölga eftir því sem best verður séð. Það hefur meðal annars haft þær afleiðingar að afgreiðslutími mála hefur heldur lengst. Ég þekki það að í ákveðnum tilvikum getur afgreiðsla mála hjá umboðsmanni dregist úr hófi.

Við þekkjum skýringar á því. Við þekkjum þær skýringar sem fram hafa komið í skýrslum umboðsmanns um fjölgun kvartana, fjölgun erinda, niðurskurð á fjárveitingum, fækkun starfsmanna. Færri starfsmönnum er falið að sinna fleiri verkefnum og það hefur auðvitað áhrif á útkomuna. En ég nefni þetta hér vegna þess að það er mikilvægt að við sem störfum á þingi gerum umboðsmanni kleift að sinna verkefnum sínum eins og honum er falið að lögum og sjáum til þess að starfsemin þar gjaldi þess ekki að fjármunir séu skornir við nögl.

Ég hlýt að nefna í þessu sambandi að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir að framlög til embættis umboðsmanns skerðist að raungildi. Það er umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn sem munum fjalla um þetta á vettvangi fjárlaganefndar og í fjárlagaumræðu hér á næstu vikum.

Það er ekki bara ákveðið réttaröryggisatriði að umboðsmaður geti lokið störfum sínum eða lokið skýrslum og athugunum á viðunandi tíma. Það skiptir auðvitað máli fyrir þá aðila sem til hans leita að fá úrlausn sinna mála hratt og örugglega. Það skiptir líka máli fyrir þau stjórnvöld sem hann er að skoða að fá skýrar línur í það hvort þau eru að gera rangt eða rétt, fá álit hans á þeim atriðum. Það skiptir máli. En auðvitað skiptir það líka máli fyrir umboðsmann út á við og upp á trúverðugleika embættisins að honum sé kleift að klára mál á viðunandi tíma vegna þess að, eins og fram kemur í þessum skýrslum, umboðsmaður er mjög oft réttilega að gera athugasemdir við málshraða og afgreiðslutíma hjá ráðuneytum eða undirstofnunum þeirra. Það verður þá að vera ákveðið samræmi í því.

Ég vek athygli á þessu. Umboðsmaður vekur sjálfur athygli á því í skýrslum að málsmeðferðartími hafi lengst og rekur fyrir því skýringar sem ég tek gildar. Það er þá okkar hér í þinginu að taka þær ábendingar alvarlega og bregðast við með viðunandi hætti því að auðvitað verður umboðsmaður að vinna sín verk vel. Hann er að leggja mat á vinnulag annarra, hann er að leggja mat á það hvort aðrir standi sig í stykkinu í sinni stjórnsýslu og þess vegna verður umboðsmaður að vanda til verka sjálfur. En í því felst líka að þeir sem leita til hans verða að fá svör á skikkanlegum tíma. Nóg um það.

Ég hef ekki tök á að nefna mörg atriði í viðbót en ég verð þó að víkja að því að fjárskortur embættisins hefur komið niður á ýmsum þáttum í starfinu og meðal annars því sem oft hefur verið nefnt hér í umræðum á þinginu en það eru svokölluð frumkvæðismál. Það eru mál sem umboðsmaður tekur upp að eigin frumkvæði, tekur til rannsóknar að eigin frumkvæði, og mér finnst ljóst að þau verkefni hafa setið á hakanum. Bæði hefur umboðsmaður verið hikandi við að taka upp ný verkefni en eins hefur kannski orðið dráttur á því að niðurstaða fengist í þeim málum sem þannig háttar um.

Ég rakst á í skýrslu, nýjustu skýrslunni reyndar, sem er nú ekki formlega til umræðu hér, lista yfir þau mál. Það eru meðal annars frumkvæðisathuganir eða frumkvæðisrannsóknir umboðsmanns sem enn standa yfir vegna mála sem í mörgum tilvikum eru afar gömul, eru nokkuð komin til ára sinna ef svo má segja. Umboðsmaður gerir grein fyrir þeim, að þau séu eftir atvikum enn til skoðunar og að verið sé að fylgjast með framkvæmd og þróun á þessu sviði. En ég verð að játa að mér finnst mikil synd að umboðsmaður skuli ekki hafa bolmagn, fjárveitingar eða mannskap til að sinna þessum málum betur vegna þess að í mörgum tilvikum er um að ræða mál sem hafa mikla almenna þýðingu og skipta verulegu máli.

Við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd munum vafalaust eiga kost á að ræða þetta við umboðsmann í næstu viku. Ég vildi þó geta þess að á listanum sem birtur er eru mjög áhugaverð mál. Ég nefni sem dæmi að frá árinu 2006 hefur staðið yfir frumkvæðisathugun á auglýsingum á lausum embættum og störfum þegar ráðherra fer með veitingarvald. Þetta er mál sem reynir gríðarlega oft á í framkvæmd, hefur gert það bæði í tíð núverandi ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórna. Þarna er umboðsmaður með athugun í gangi sem er viðvarandi en væri mjög gagnlegt að fá einhverja úttekt á. Það gæti þá hugsanlega orðið okkur hér í þinginu til leiðbeiningar um hvort við þurfum að bregðast við með einhverjum hætti.

Það sama á við um samningagerð við einkaaðila sem hefur verið í gangi frá 2007. Það reynir mjög oft á vafamál í því sambandi, samninga ríkisins við einkaaðila um hin og þessi málefni. Þannig má lengi telja. Þarna er um að ræða nokkuð langan lista, hæstv. forseti, en ég bendi á þetta í þessari umræðu. Tækifæri gefst til þess síðar að fjalla um einstök mál en ég vil víkja að þessu með almennum hætti til að árétta það og undirstrika að umboðsmaður þarf að hafa bolmagn til að sinna frumkvæðismálum með viðunandi hætti og ekki síður að ljúka þeim málum sem hafin eru.