141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010.

247. mál
[15:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum skýrslu umboðsmanns Alþingis. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur í fyrsta skipti skilað skýrslu þar um inn í þingið. Ég held að það sé rétt að við þingmenn fögnum þeim áfanga. Það eru nokkur mál sem ég hyggst nefna á þessum stutta tíma sem við höfum.

Við verðum að velta fyrir okkur: Af hverju hefur málafjöldi til umboðsmanns Alþingis aukist? Er embættið í stakk búið til að taka við svo miklum málafjölda miðað við þá stöðu sem það er í í dag og þann mannafla sem það hefur? Ef svo er ekki þarf Alþingi að velta því fyrir sér hvort ekki sé þarft að veita meira fjármagn til embættisins til að það geti staðið undir þeim verkefnum sem til þess berast.

Umboðsmaður Alþingis gegnir mikilvægu eftirlitshlutverki fyrir borgarana. Hann er sá aðili sem borgararnir geta leitað til telji þeir að á sér hafi verið brotið innan stjórnsýslunnar eða af stjórnvaldi. Það ætti að skipta Alþingi miklu máli að þetta embætti hafi þau tæki og tól sem það þarf til að sinna þessum augljósa rétti sem borgararnir eiga.

Umboðsmaður Alþingis gerir og hefur gert sömu þætti að umtalsefni í hverri einustu skýrslu sinni. Talað er um tafir í opinberri stjórnsýslu, þ.e. að stjórnsýslan virði hugsanlega ekki lögbundna fresti sem henni ber að gera til afgreiðslu mála, og ýmsa aðra þætti. Það er alveg ljóst í mínum huga, virðulegur forseti, að þarna þurfa þeir sem hlut eiga að máli að fara ofan í þá verkferla sem gilda um þau verkefni sem þeim ber að sinna, virðing fyrir verkefnunum þarf að vera fyrir hendi og þannig búið um hnútana að kleift sé að vinna þau innan þess lögbundna frests sem settur er. Það er skynsamlegra, ef ljóst er að í fæstum tilvikum er hægt að vinna verkefnin innan ákveðins frests sem gefinn er, að lengja frestinn en að fara sífellt fram úr þeim takmörkunum sem settar eru. Þá kemur samhliða að málshraða og menn verða að láta þetta tvennt haldast í hendur.

Það er afar mikilvægt í mínum huga að við áttum okkur á því að umboðsmaður Alþingis er sjálfstæð stofnun og lýtur engu boðvaldi.

Virðulegur forseti. Hér áðan var komið inn á eftirlitsþætti í starfi stjórnvalda. Það er dapurlegt að þurfa að lesa það í hverri skýrslunni á fætur annarri að oft og tíðum kvarta aðilar ekki undan eftirlitsþætti stjórnvalda af ótta við að verða hegnt fyrir það með einum eða öðrum hætti. Það er algjörlega ljóst, ef þetta er upplifun og tilfinning þeirra sem eftirlitið nær til, að þeir sem sinna eftirlitshlutverkinu eru væntanlega vart til þess bærir reynist sú tilfinning og upplifun rétt að fólki telji að því verði hegnt ef það gerir athugasemdir við eftirlitið og þá þarf að fara yfir það og skoða. Hér er líka, virðulegur forseti, talað um almannahagsmuni sem ber að hafa í huga þegar eftirlitsþáttur af hálfu stjórnvalda er annars vegar.

Virðulegur forseti. Þegar verið er að tala um málsmeðferðarreglur stjórnsýslunnar er annars vegar talað um rannsóknarregluna og hins vegar talað um rökstuðninginn sem þarf að fylgja. Málsmeðferðarreglurnar verða að vera með þeim hætti að ljóst sé í hverju menn ætla að fara að vinna og að rökstuðningur með málinu sé skýr þannig að ekki sé endalaust verið að senda fólk á milli eða umboðsmaður Alþingis taki við beiðni og sendi til baka vegna þess að hún sé illa rökstudd eða verkefnið illa unnið. Það er of margt slíkt í þessari skýrslu og í þeim skýrslum sem hafa borist. Þetta segir okkur að við þurfum einfaldlega að vanda okkur. Þetta segir okkur að sú stjórnsýsla, hvort heldur sem hún er hjá ríki eða sveitarfélögum, sem eru tæki í þjónustu borgaranna, verður að vanda sig betur og átta sig á því að hún er ekki fyrir sjálfa sig heldur er hún í þjónustu við borgarana og ber að sinna því hlutverki sínu fyrst og síðast.

Virðulegur forseti. Það er ekki nægjanlegt að fræða þá sem starfa í stjórnsýslunni eingöngu um stjórnsýslureglur og stjórnsýslulög heldur þarf að gera eins og stendur í skýrslunni á bls. 10, með leyfi forseta:

„Það er grundvallaratriði fyrir réttaröryggi borgaranna að starfsfólkið viti hvaða reglum á að fylgja og að þjónustan sem það veitir uppfylli gæðakröfur laga og réttarreglna.“

Þetta er grundvallaratriði vegna þess að þetta er þjónusta við borgarann. Hann á að upplifa það sem slíkur að þetta sé viðhorfið og hann á að geta treyst því að þannig sé hann þjónustaður.

Það vill brenna við að við sem erum í opinberri þjónustu finnum stundum að við erum þar fyrir eitthvað annað en þjónustu við borgarana. Þetta á líka við um hv. þingmenn, virðulegur forseti, vegna þess að þeir eru ekki í neinu öðru hlutverki en í þjónustu við (Utanrrh.: Tali hver fyrir sig.) landsmenn. — Tali hver fyrir sig, segir hæstv. utanríkisráðherra. Ég lít í það minnsta svoleiðis á. Ég vænti þess að hæstv. utanríkisráðherra geri það sama, hann hefur margoft sýnt það í störfum sínum.

Virðulegur forseti. Það er líka athugavert hver viðbrögð stjórnvalda og stjórnsýslunnar eru stundum við gagnrýni og aðfinnslum. Það er kannski eins með okkur hér. Í staðinn fyrir að líta til þess hvað við getum lært af þeirri gagnrýni sem fram kemur, hvað við getum við lært af því sem miður hefur farið og taka þann lærdóm með í að breyta til hins betra förum við hugsanlega í fýlu eða mótmælum aðfinnslum og gagnrýni einhverra hluta vegna. Við ættum að taka slíku með því hugarfari að hugsanlega eigum við og getum lært af því og breytt til hins betra.

Virðulegur forseti. Starfandi er nefnd um endurskoðun á lögum um umboðsmann Alþingis. Mig langar að nefna það í þessum sal að þar hefur m.a. komið fram að starfsmenn Alþingis geta ekki skotið máli sínu til umboðsmanns Alþingis telji þeir á sér brotið með einum eða öðrum hætti í þinginu. Þeir verða að sækja mál sitt fyrir dómstólum. Ég tel að við endurskoðun laga um umboðsmann Alþingis þurfi að skoða þetta mál og þessa lagagrein. Sömu sögu er að segja um þá sem starfa hjá dómstólum. Þeir geta ekki leitað réttar síns til umboðsmanns Alþingis. Þeir verða líka að sækja sérstakt dómsmál ef þeir telja brotið á rétti sínum. Það er að mínu mati galli í lögum um umboðsmann Alþingis sem okkur gefst nú tækifæri til að lagfæra og skoða. Það getur ekki verið ætlun löggjafans að þeir sem vinna hjá Alþingi og þeir sem vinna hjá dómstólum séu þannig settir að þeir þurfi að sækja mál sitt fyrir dómstólum í einkamáli telji þeir á sér brotið þegar aðrir geta leitað til embættis umboðsmanns Alþingis. Ég legg ríka áherslu á að það verði skoðað.

Virðulegur forseti. Fyrst og síðast fagna ég því að við á Alþingi erum að taka skýrslur umboðsmanns til umræðu í þinginu. Við erum komin með ferli sem skiptir máli. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur við skýrslum umboðsmanns Alþingis, skilar þinginu um þær skýrslu og um hana fjöllum við síðan, aðrir þingmenn sem ekki sitjum í þeirri ágætu nefnd, og tökum á því verkefni sem um er að ræða og leggjum okkar á vogarskálarnar til að lagfæra það sem sýnt er eða umboðsmaður Alþingis og aðrir telja að þurfi lagfæringar við í lagasetningu varðandi þetta mikilvæga embætti til að tryggja að það geti veitt borgurum það skjól sem það hefur gert til þessa.