141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 158/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

278. mál
[15:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu leita ég heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2012. Sú ákvörðun fjallar um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun. Jafnframt er felld inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins sem merkt er ESB/2011, frá 27. september 2011. Hún er um heiti textíltrefja og viðkomandi merkimiða og merkingar varðandi trefjasamsetningu textílvara. Hún er sömuleiðis um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 73/44/EBE og jafnframt um að felldar skuli niður tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins nr. 96/73/EB og 2008/121/EB.

Í fyrrnefndri reglugerð, þ.e. nr. 107/2011, er að finna heildarlöggjöf þar sem steypt hefur verið saman í eitt reglum sambandsins um textílheiti og magngreiningu textíltrefjablandna. Innleiðing reglugerðarinnar kallar á að hér á landi verði sett lög um þetta efni, þ.e. textílmerkingar, textílheiti og hvað sem því sem fylgir. Fyrirhugað er að hæstv. innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til slíkra laga til þess að innleiða reglugerðina, en óljóst hvort það muni takast á því löggjafarþingi sem nú stendur yfir.

Ég veit að það gleður hv. þingheim að ekki er gert ráð fyrir því, eftir ítarlega skoðun embættismanna ráðuneytisins, að löggjöf af þessu tagi eða innleiðing þessara gerða og reglugerða muni hafa í för með sér nokkurn efnahagslegan eða stjórnsýslulegan kostnað hér á landi. Þar sem þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar var hún á sínum tíma tekin með stjórnskipulegum fyrirvara og er því óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst, þ.e. að unnt sé að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, frú forseti, að þegar umræðu um málið sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.