141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 167/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

279. mál
[15:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hér flyt ég sömuleiðis tillögu þar sem ég leita heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Að þessu sinni er sú ákvörðun merkt 167/2012. Hún fjallar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn. Sá er um fjármálaþjónustu. Jafnframt er gert ráð fyrir því í þessari ákvörðun að felld verði inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem merkt er 2010/73/ESB. Sömuleiðis að breytt verði tilskipunum 2003/71/EB um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar, og eins gerð 2004/109/EB um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem skráðar eru á skipulegan markað.

Með tilskipun 2010/73/ESB eru gerðar breytingar á ákvæðum tveggja tilskipana sambandsins. Annars vegar er breytt tilskipun sem varðar útboðs- og skráningarlýsingu. Breytingarnar miða að því að einfalda þær kröfur sem gerðar eru og hafa verið taldar óþarflega íþyngjandi, einkum fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki. Hins vegar eru gerðar breytingar sem ætlað er að tryggja viðeigandi gagnsæi fyrir fjárfesta með því að koma á reglubundnu upplýsingastreymi.

Innleiðing tilskipunar 2010/73/ESB kallar á breytingar á tveimur köflum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, það eru kaflar VI og VII. Þeir fjalla um útboð og töku verðbréfa til viðskipta. Fyrirhugað er að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra leggi fram lagafrumvarp á því löggjafarþingi sem nú er háð til innleiðingar á þessari tilskipun.

Sömuleiðis er ekki gert ráð fyrir því eftir ítarlega skoðun, fremur en í því máli sem ég flutti áðan, að innleiðing tilskipunarinnar sem af samþykkt þess hlýst hér á landi muni hafa í för með sér efnahagslegan eða stjórnsýslulegan kostnað.

Sú ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Af því leiðir að á sínum tíma heimilaði ríkisstjórn samþykkt hennar í EES-nefndinni af hálfu fulltrúa okkar með stjórnskipulegum fyrirvara. Þess vegna óska ég eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að létta megi þessum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, frú forseti, að þegar þessari umræðu er lokið verði málinu vísað til vinnslu í hv. utanríkismálanefnd.