141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 168/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

280. mál
[15:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þeirri þingsályktunartillögu sem ég mæli nú fyrir leita ég heimildar hins háa Alþingis til að staðfesta megi fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2012, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, um fjármálaþjónustu, og með því verði felldar inn í samninginn eftirfarandi gerðir:

1. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 583/2010 frá 1. júlí 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar lykilupplýsingar fyrir fjárfesta og skilyrði sem skulu uppfyllt þegar lykilupplýsingar fyrir fjárfesta eða lýsingin er lögð fram á varanlegum miðli öðrum en pappír eða á vefsetri.

2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 584/2010 frá 1. júlí 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar snið og inntak staðlaðrar tilkynningar og staðfestingar á verðbréfasjóði, notkun rafrænna samskipta milli lögbærra yfirvalda vegna tilkynninga og verklagsreglur vegna sannprófunar á staðnum og rannsókna sem og upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda.

3. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/43/ESB frá 1. júlí 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar skipulagskröfur, hagsmunaárekstra, viðskiptahætti, áhættustýringu og inntak samkomulagsins milli vörslufyrirtækis og rekstrarfélags.

4. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/44/ESB frá 1. júlí 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar tiltekin ákvæði varðandi samruna sjóða, skipan höfuðsjóða og fylgisjóða og tilkynningaraðferð.

Þessar umræddar fjórar ESB-gerðir hafa allar að geyma útfærsluákvæði á reglum um starfsemi verðbréfasjóða. Í einni gerðinni er fjallað um skipulagskröfur rekstrarfélaga verðbréfasjóða til að sporna gegn hagsmunaárekstrum, um áhættustjórnun og aðferðir til þess að ákvarða og meta áhættu, og hvað skuli felast í samningi milli vörslufyrirtækis og rekstrarfélags, sömuleiðis ákvæði sem varða, við getum sagt góða viðskiptahætti rekstrarfélags.

Í annarri gerðinni er svo kveðið á um það hvaða upplýsingar skulu veittar hlutdeildarskírteinishöfum við samruna verðbréfasjóða, skilyrði fyrir samningsgerð móðursjóðs við verðbréfasjóð sem fjárfestir að minnsta kosti 85% í sjóði móðursjóðsins og innihald upplýsinga sem aðildarríkin skulu birta verðbréfasjóðum sem huga að markaðssetningu.

Í þriðju gerðinni er svo kveðið á um lykilupplýsingar sem er skylt að gera aðgengilegar fyrir fjárfesta verðbréfasjóða.

Þá er loksins í fjórðu gerðinni kveðið á um það hvernig framkvæmd á markaðssetningu verðbréfasjóða í gistiríki skuli háttað.

Innleiðing þeirra gerða sem ég hef hér rakið kallar á breytingu að þessu sinni á lögum nr. 128/2011. Þau lög fjalla um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefur nú þegar lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi frumvarp sem inniheldur heimildir fyrir þeim tilskipunum og reglugerðum sem að framan eru raktar.

Ég veit að það gleður menn sem vilja á annað borð gleðjast að skoðun hefur leitt í ljós að þessar laga- og reglugerðarbreytingar munu ekki hafa í för með sér neinn teljandi kostnað og enga stjórnsýslulega umsýslu hér á landi.

Fyrri ákvarðanir sem ég hef hér mælt fyrir voru á sínum tíma teknar með stjórnskipulegum fyrirvara þar sem þær krefjast lagabreytinga hér á landi. Þess vegna er óskað eftir þessari samþykkt Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að þeim stjórnskipulega fyrirvara megi aflétta.

Ég legg til, frú forseti, að þegar þessari umræðu er lokið verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.