141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

281. mál
[15:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þeirri tillögu sem ég mæli fyrir er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir hönd Íslands ákvörðun sem tekin var í sameiginlegu EES-nefndinni. Það er ákvörðun nr. 181/2012. Hún varðar breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn. Sá viðauki fjallar um neytendavernd.

Sömuleiðis er með tillögunni og því sem af henni leiðir lagt til að fellt verði inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB um réttindi neytenda. Einnig er lögð til breyting á tilskipun ráðsins 93/13/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB og loks um niðurfellingu tveggja tilskipana, 85/577/EBE og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB.

Með tilskipun 2011/83/ESB eru samræmd ákvæði um húsgöngu- og fjarsölu. Þar er meðal annars kveðið á um rétt neytenda til að falla frá samningi og um hvaða atriði seljendum er skylt að upplýsa neytendur áður en samningur um kaup á vörum eða þjónustu verður skuldbindandi.

Að auki var lögð sú skylda á aðildarríkin að tilkynna til framkvæmdastjórnarinnar þegar þau samþykkja reglur á tilteknum sviðum um hvað geti talist vera sanngjarnir eða ósanngjarnir samningsskilmálar.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á breytingar á lögum nr. 46/2000. Fyrirhugað er, eins og fram kom í þeirri málaskrá sem fylgdi stefnuræðu forsætisráðherra fyrr á þessu þingi, að hæstv. innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til slíkra laga. Hins vegar er ekki ljóst hvort framlagning málsins næst á þessu löggjafarþingi.

Eins og í hinum fyrri málum sem ég hef mælt fyrir í dag, öll ákaflega jákvæð, er gert ráð fyrir að engan umtalsverðan kostnað, efnahagslegan eða stjórnsýslulegan, þurfi að draga af innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi.

Þessi umrædda ákvörðun sem ég hef hér reifað frá sameiginlegu EES-nefndinni kallar á þær lagabreytingar hér á landi, eins og ég hef rakið, og hún var því á sínum tíma tekin með stjórnskipulegum fyrirvara og því óska ég eftir að Alþingi samþykki þessa breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að aflétta megi honum.

Ég legg til, virðulegi forseti, að tillögu þessari verði vísað til utanríkismálanefndar þegar hv. þingmenn hafa rætt um hana nægju sína.