141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[16:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.

Markmið þessa frumvarps er tvíþætt. Það er annars vegar að styrkja og skilgreina hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og hins vegar að festa í lög heimild til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna yfirfærslu grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga og framlögum til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts til þeirra sveitarfélaga er hafa heildarskatttekjur verulega umfram landsmeðaltal, þ.e. tekjur af útsvari og fasteignaskatti á hvern íbúa miðað við fullnýtingu þeirra tekjustofna.

Hvað fyrra markmiðið varðar er rétt að geta þess að í III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er fjallað um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar er greint frá starfsemi sjóðsins og framlögum þeim sem úthlutað er úr sjóðnum til sveitarfélaga á grundvelli laga. Hins vegar er hvergi að finna í lögunum samantekt um meginhlutverk og markmið sjóðsins, en í reglugerð um sjóðinn nr. 960/2010, með síðari breytingum, er því lýst svo:

„Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.“

Í þeim tilgangi að styrkja og skýra hlutverk jöfnunarsjóðs er talið rétt að setja inn í lögin ákvæði þar sem hlutverk hans er skilgreint þannig að ekki sé eingöngu kveðið á um slíkt í reglugerð eins og verið hefur. Því er lagt til að í upphafi III. kafla laganna komi ný grein, 8. gr., sbr. 1. gr. frumvarpsins, þar sem jöfnunarhlutverk sjóðsins er skilgreint enn betur, þ.e. að hlutverk sjóðsins er að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga að teknu tilliti til mismunandi styrkleika skattstofna þeirra.

Hvað seinna markmið frumvarpsins varðar ber að geta þess að sumarið 2010 skilaði starfshópur sem unnið hefur að heildarendurskoðun gildandi laga og reglugerðarákvæða um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga tillögum að breytingum á regluverki sjóðsins. Fjallað var ítarlega um tillögur starfshópsins á ársfundi jöfnunarsjóðs haustið 2010.

Þann 1. janúar 2011 komu til framkvæmda tillögur starfshópsins að nauðsynlegum breytingum á núverandi jöfnunarkerfi. Meðal þess sem starfshópurinn benti á var að tryggja þyrfti meira samræmi í jöfnunaraðgerðum sjóðsins og tryggja að hann stæði undir því hlutverki sem honum er ætlað, að jafna aðstöðumun og tekjustofna sveitarfélaga.

Áfram hefur verið unnið að framkvæmd tillagna starfshópsins, en á síðasta ári var settur á laggirnar sérstakur vinnuhópur til að vinna að framkvæmd tillagna starfshópsins.

Á ársfundi jöfnunarsjóðsins haustið 2011 er fjallað um vinnu þessa hóps og meðal annars um tillögu þess efnis að fram fari skerðing á framlögum úr sjóðnum til þeirra sveitarfélaga sem hafa mögulegar heildarskatttekjur verulega umfram landsmeðaltal í ljósi meginmarkmiðs sjóðsins sem er að jafna útgjaldaþarfir sveitarfélaga og skatttekjur þeirra.

Á grundvelli tillagnanna var sett ný reglugerð um breytingu á reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem tók gildi þann 1. janúar 2012. Með þeim breytingum er kveðið á um að skerða skuli framlög úr sjóðnum til þeirra sveitarfélaga er hafa mögulegar heildarskatttekjur 50% umfram landsmeðaltal, þ.e. tekjur af útsvari og fasteignaskatti á hvern íbúa miðað við fullnýtingu álagningarhlutfalls þeirra tekjustofna.

Á þessu ári tók gildi heimild til skerðingar á framlögum jöfnunarsjóðs vegna framlaga til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts til þeirra sveitarfélaga sem hafa heildarskatttekjur verulega umfram landsmeðaltal. Verði frumvarp þetta að lögum er ráðgert að á árinu 2013 nái skerðingin jafnframt til framlaga vegna yfirfærslu grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga. Frumvarpið sem hér er mælt fyrir tryggir því enn frekar þann megintilgang Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að veita framlög til þeirra sveitarfélaga sem brýna þörf hafa fyrir framlög úr sjóðnum að teknu tilliti til mögulegra tekjustofna þeirra.

Því er lagt til að fest verði í lög að heimilt sé að kveða á um í reglugerð skerðingu á framlögum jöfnunarsjóðs vegna yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga og framlögum til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts til þeirra sveitarfélaga er hafa mögulegar heildarskatttekjur verulega umfram landsmeðaltal, þ.e. útsvari og fasteignaskatti á hvern íbúa miðað við fullnýtingu þeirra tekjustofna. Er það mat ráðuneytisins að þegar mögulegar heildarskatttekjur sveitarfélags eru 50% umfram landsmeðaltal teljist þær verulegar og beri að taka sérstakt tillit til þess við úthlutun framangreindra framlaga úr jöfnunarsjóði.

Verði frumvarpið að lögum mun þeim fjármunum sem við það sparast verða dreift til þeirra sveitarfélaga sem ekki verða fyrir skerðingu þar sem tekjur þeirra eru undir viðmiðunarmörkum. Því er ekki um að ræða lækkun á framlögum úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaga almennt heldur er um að ræða breytingu á innbyrðis skiptingu framlaga milli sveitarfélaga í samræmi við hlutverk sjóðsins eins og því er lýst í 1. gr. frumvarpsins.

Á mynd á fylgiskjali I eru mögulegar hámarksskatttekjur á íbúa í fimm tekjuhæstu sveitarfélögum landsins árið 2011 sýndar og sú hækkun sem verður á heildarskatttekjum þeirra þegar framlögum jöfnunarsjóðs er bætt við. Er það mat ráðuneytisins, að teknu tilliti til tillagna vinnuhópsins, að umrædd sveitarfélög hafi ekki þörf fyrir framlög úr sjóðnum, eigi tekjustofnar þeirra að standa undir rekstri þeirra. Skerðing framlaga jöfnunarsjóðs til tekjuhæstu sveitarfélaganna mun leiða til hækkunar framlaga hjá öðrum sveitarfélögum sem hafa meiri þörf fyrir framlög úr sjóðnum.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.