141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[16:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get náttúrlega ekki fullyrt um hvaða niðurstöðu nefndin skilar, en ég hef trú á því að hún skoði það álitamál sem hér var vakið máls á. Ég legg áherslu á varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og greiðslur úr honum, þær reglur sem settar eru, að reglugerðarramminn og lagaramminn er allur unninn í mjög góðri sátt við sveitarfélögin í landinu, þarna er hin lýðræðislega vídd í málinu. Við förum ekki fram með neitt sem ekki er í fullri sátt við sveitarfélögin í landinu. Síðan geta einstök sveitarfélög haft mismunandi skoðanir á úthlutunarreglunum, en það breytir því ekki að sem samtök hafa þau komið að smíði þessa regluverks.