141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[16:40]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við frumvarp til breytinga á lögum um meðferð sakamála. Þetta frumvarp er kannski ekki mikið í texta, það er tvær greinar, tillögugrein eða breytingargrein á lögum og svo gildistökugrein: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég hef reynt að kynna mér aðeins efnisinnihald frumvarpsins og tel mikilvægt að við skoðum það vel í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég heyri að hæstv. ráðherra gefur í skyn að hér sé verið að þrengja talsvert að heimildum lögreglunnar til ýmissa rannsókna á brotum og sérstaklega verið talað um símhleranir. Það má segja að það sé að sumu leyti rétt, tæknilega séð, en þarna er verið að breyta aðeins texta. Í dag stendur í 83. gr. laganna, með leyfi virðulegs forseta:

„Skilyrði fyrir aðgerðum skv. 80.–82. gr. er að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti.

Auk þess sem segir í 1. mgr. verða þau skilyrði að vera fyrir hendi svo að gripið verði til aðgerða skv. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.“

Þannig hljómar þetta í dag. Eins og ég skil frumvarpið er lagt til að í staðinn fyrir átta ára fangelsi verði það sex ára fangelsi og í staðinn fyrir orðið „ellegar“, þ.e. „ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess“, komi „og“, þ.e. „og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess“. Það þurfi því að uppfylla bæði þessi skilyrði til að hægt sé að beita slíkum aðgerðum eða rannsóknum en ekki bara annað hvort skilyrðið.

Eins og ég skil frumvarpið held ég að þetta sé ekki mjög mikil breyting frá því sem nú tíðkast. Ég held að í praxís hafi þetta lítið sem ekkert að segja. Ég ætla þó að áskilja mér allan rétt að skoða það betur í nefndinni. En eins og ég hef skilið þetta fer lögreglan mjög varlega með þessar heimildir í dag og muni gera það áfram þannig að þetta frumvarp breytir ósköp litlu þar um.

Ég hef hins vegar séð opinber viðbrögð við þessu frumvarpi á þann veg um að það verði sérstaklega erfitt að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi verði það að lögum. Ég er ekki viss um að það sé endilega rétt. Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega tekið fram, og ég ætla að fá að lesa það, með leyfi virðulegs forseta:

„Þó er gert ráð fyrir að frá fyrrgreindri meginreglu megi víkja ef til rannsóknar eru tiltekin brot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi eða beinast gegn friðhelgi einkalífs, frjálsræði eða persónuvernd, enda þótt refsiramminn nái ekki sex ára fangelsi, að því tilskildu að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist þess að gripið verði til aðgerðar á borð við símahlustun í því skyni að upplýsa brotin.“

Miðað við minn skilning á málinu er þetta ekki mikil breyting frá því sem er í praxís í dag, ég held að lögreglan beiti ekki slíkum heimildum á minni háttar brot, það séu engin dæmi þess. Ég tel hins vegar gríðarlega mikilvægt, sama hvernig þetta mál fer í þinginu, að við samþykkjum, helst sem fyrst, nýjar heimildir til lögreglunnar, svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir. Ég veit að hæstv. ráðherra er ekki sammála því, er frekar andsnúinn því.

Það er algjörlega óásættanlegt að íslenska lögregluliðið hafi minni heimildir en lögreglulið annars staðar á Norðurlöndum í þessu sambandi. Það er algjör útópía að halda að við getum búið við minni heimildir en þau þegar kemur að því að rannsaka yfirvofandi brot. Slíkar rannsóknir snúast um að lögreglan fái heimild til að safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot sem framið hefur verið. Lögreglulið annars staðar á Norðurlöndum geta rannsakað slíka aðila og fylgst með þeim og það er mjög mikilvægt að við getum gert það líka.

Þessar heimildir hafa komið í veg fyrir meiri háttar afbrot. Það má nefna Jyllandsposten, en hægt var að koma í veg fyrir árás á þann fjölmiðil á sínum tíma út af beitingu forvirkra rannsóknarheimilda og fleiri dæmi má nefna. Það er mjög mikilvægt að hægt sé að fylgjast með einstaklingum sem eru metnir hættulegir vegna sinnar sögu og þar sem liggur fyrir grunur um að þeir muni fremja af sér brot, þótt það sé ekki tiltekið brot sem er yfirvofandi.

Ég vil bara koma þeim sjónarmiðum mínum á framfæri við 1. umr. þessa máls að ég held að þetta frumvarp beri í sér minni breytingar en menn halda. Ég tel miklu mikilvægara að við einbeitum okkur að því að koma hér á heimildum sem eru sambærilegar og hjá lögregluliðum á öllum Norðurlöndum og tíðkast að ég held í flestum eða öllum Evrópuríkjum og eru taldar mjög nauðsynlegar.

Þótt við höldum, virðulegur forseti, að vegna þess að við búum á einangraðri eyju úti í hafi séum við þar af leiðandi betur varin gegn glæpum en önnur lönd, er það ekki þannig. Glæpir sem rata á fjörur landanna í kringum okkur rata líka til okkar. Ég er ekki sammála því viðhorfi sem hefur komið fram hjá hæstv. innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni í fjölmiðlum að það eigi ekki að veita þessar heimildir hér heldur eigi bara að höfða til samvisku glæpamannanna og samvisku almennings. Almenningur eigi að taka á þessu einhvern veginn með því að sameinast um að hindra brot. Auðvitað vill maður að almenningur taki þátt í því en það hefur nú ekki sýnt sig skila nægilega miklum árangri annars staðar og mun ekki skila nægilega miklum árangri hér.

Lögreglan í landinu biður um þessar heimildir, forvirkar rannsóknarheimildir eða fyrirbyggjandi rannsóknarheimildir og ekki bara lögreglan heldur líka til dæmis Ríkisendurskoðun. Sú stofnun bað sérstaklega um að þessar heimildir yrðu veittar í skýrslu sem hún gaf út um fíkniefnabrot. Það er mjög mikilvægt að við ruglum ekki saman því máli sem er hér til umræðu og forvirkum rannsóknarheimildum en það er mjög nauðsynlegt að koma þeim á.