141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[16:54]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að hér eru engin heljarstökk á ferðinni. Ég held að þetta sé jafnvel minni breyting en menn halda. En við skulum skoða það betur í nefndinni og fara vel yfir þetta.

Það breytir ekki því að það er mjög mikilvægt að ræða forvirkar rannsóknarheimildir. Hæstv. ráðherra tók sér svolítinn tíma í að ræða þær og ég kom inn á þær í fyrri ræðu minni. Það er mjög mikilvægt að koma þeim á. Hæstv. ráðherra klifaði á leyniþjónustunni í Danmörku, en þessum forvirku rannsóknarheimildum eða fyrirbyggjandi rannsóknarheimildum er beitt og þær eru til staðar í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og ég held í flestum evrópskum ríkjum. Þær eru til alls staðar.

Lögreglan kallar eftir þeim. Við í allsherjar- og menntamálanefnd höfum fengið ríkislögreglustjóraembættið til viðtals og það embætti biður um þessar heimildir á fundum nefndarinnar. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Stefán Eiríksson, hefur líka komið fyrir allsherjar- og menntamálanefnd með sitt lið og biður líka um þessar heimildir. Svo nefndi ég áðan að Ríkisendurskoðun hefur sagt opinberlega í skýrslu að koma þurfi þessum heimildum á.

Þetta er því ekki mikið deilumál innan lögreglunnar, virðulegur forseti, eins og hæstv. innanríkisráðherra gefur í skyn. Þeir sem eru núna í forsvari og bera ábyrgð á lögreglunni í landinu kalla eftir þessum heimildum. Þeir telja að það að þær séu ekki til staðar hér geti veikt norrænt samstarf í þessum málaflokki. Ég held að það sé mikill barnaskapur að halda að þeir alvarlegu glæpir sem mögulega er hægt að fyrirbyggja með þessum rannsóknum rati ekki hingað og samfélagið hér geti á einhvern hátt varið sig gagnvart þeim.

Komið hefur verið í veg fyrir mörg hryðjuverk og stærri erfiðleika og árásir með beitingu þessara heimilda, en það hefur ekki verið hægt að stoppa allt. Ég nefndi á sínum tíma þegar þessi mál voru rædd að ekki hefði verið hægt að stoppa Breivik í Noregi. Reyndar var slíkum heimildum ekki beitt í því tilviki, skilst mér. Ég hef fengið upplýsingar um það síðar, þannig að ekki var nú hægt að grípa til þeirrar skýringar á því að ekki tókst að stoppa hann. En þessum heimildum var beitt þegar árásin var undirbúin á Jyllandsposten, henni var hægt að hrinda, og fleiri árásum hefur verið hægt að hrinda vegna beitingar slíkra heimilda. Það má líka nefna alls konar aðra glæpi sem hægt er að hindra með beitingu þeirra eins og það að stöðva menn sem eru einfarar og eru ekki endilega hluti af stærri heild, sem geta verið mjög hættulegir í samfélagi.

Hæstv. ráðherra kom líka inn á að það væri verið að reyna að fá ungt fólk í skipulagða glæpastarfsemi og þá hópa sem hana stunda og það er rétt. Það er ágætt að það komi fram að allsherjar- og menntamálanefnd fór nýlega í heimsókn á Litla-Hraun og þar kom fram að það er verið að reyna að fá unga menn í þessi gengi. Ég heimsótti Stuðla í fyrra og þar kom fram að aðilar sem tengjast þessum hópum eða eru í þessum gengjum, hafa barið þar allt að utan í einhverjum tilvikum til að reyna að fá krakka út sem hafa því miður verið þar í vistun. Það er því gengið mjög langt í því að reyna að fá ungt fólk inn í þessi samtök, því miður. Það ber að sporna við því eins og hægt er.

Ég er sammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að ágætissamstaða hefur verið um að taka á þessum hópum hér innan lands. Allsherjar- og menntamálanefnd samþykkti einróma að veita aukið fjármagn í sérstakt átaksverkefni sem laut að því að stemma stigu við þessum hópum og það hefur borið árangur. Ég vil líka minna á að samstaða var í allsherjar- og menntamálanefnd um að afgreiða þingsályktunartillögu um að hæstv. ráðherra bæri að undirbúa frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir. Það fór út í þokkalegri samstöðu, einn hv. þingmaður var ekki á málinu, sumir voru reyndar með fyrirvara. En málið fór út úr nefndinni en það náðist ekki að afgreiða það í því málþófi sem eiginlega var hér síðasta vor.