141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[17:16]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var þannig með frumvarp hæstv. innanríkisráðherra að það fór í ruslið hjá allsherjar- og menntamálanefnd, enda vöruðu nokkrir aðilar við því að það yrði samþykkt og sögðu að það væri skref aftur á bak en ekki fram á við í þessum málaflokki. Hverjir voru það? Það var ríkislögreglustjóraembættið, það var lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknari, Ákærendafélag Íslands og ég held að Landssamband lögreglumanna hafi líka skilað inn umsögn. Það var sagt: Ef þetta frumvarp verður samþykkt er það stórt skref aftur á bak í löggæslumálum á Íslandi, það á alls ekki samþykkja það, þetta frumvarp verður að hverfa. Það hvarf sem betur fer.

Ég er algjörlega sammála hæstv. innanríkisráðherra að það ríkir mjög mikið traust í garð lögreglunnar í dag og hefur ríkt. Það hefur ekki fallið eins og það hefur gert hjá flestum stofnunum landsins eftir bankahrun, svo ekki sé minnst á Alþingi sjálft. Lögreglan heldur mjög góðu trausti. Það eru hins vegar ýmis mál sem þarf að laga til að viðhalda traustinu.

Það eru tvö mál sem allsherjar- og menntamálanefnd hefur verið að skoða upp á síðkastið og ágætt að upplýsa það hér. Í fyrsta lagi eru það kynferðisbrotamálin. Sú deild á höfuðborgarsvæðinu er vanmönnuð og þar þarf að spýta í að okkar mati. Ég held að það sé mikill skilningur á því hjá allsherjar- og menntamálanefnd af því að það tekur of langan tíma að rannsaka kynferðisbrotamálin. Í öðru lagi er ljóst að einnig þarf að skoða mál löggæslunnar á Suðurnesjum. Það hefur orðið svo gríðarleg aukning í fluginu að efla verður mannafla í öllu vegabréfaeftirliti í Leifsstöð svo ekki myndist þar biðraðir og viðskiptamódel Icelandair og fleiri flugfélaga hrynji. (Gripið fram í.) Þar þarf að gera verulegt átak. Flugið hjá Icelandair hefur aukist um helming, úr 250 þús. farþegum í 500 þús. farþega (Forseti hringir.) á fimm árum. Á fimm árum hefur farþegafjöldinn tvöfaldast bara hjá Icelandair.