141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

búfjárhald.

282. mál
[17:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um velferð dýra. Eins og kom fram í framsögu hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra er um endurframlagningu málsins að ræða. Um gríðarlega mikla og ítarlega vinnu er að ræða í aðdragandanum, mikið, opið og ítarlegt samráð sem sæmir þeirri miklu áskorun sem þarna er, sem er dýravelferð. Yfirskrift laganna endurspeglar nýja áherslu sem setur velferð dýranna sjálfra í brennidepil og breytir í raun og veru heildarsýninni og heildarafstöðunni, en um leið er að sumu leyti um meira krefjandi áskorun að ræða þar sem fjallað er bæði um skepnur sem þarf að halda og síðan skepnur sem þarf að nýta. Nýtingarsjónarmið eru þess eðlis að þau hafa tilhneigingu til þess að ganga á það viðfangsefni sem um ræðir. Við þekkjum vel þá umræðu þar sem náttúruvernd er annars vegar og þau siðrænu sjónarmið sem þar koma til.

Pólitísk umræða um dýravernd hefur verið veik hér á landi. Má segja að hún sé eiginlega fyrst að vakna þessi missirin með aukinni umræðu sem byggir á kröfum og umhverfisvitund neytenda, kröfum sem byggja á meiri vitund og meiri upplýsingum um það að velferð dýra er hluti af þeirri kröfu sem almenningur gerir, sérstaklega að því er varðar neyslu.

Þessi kerfisbreyting endurspeglar að sumu leyti þær áherslubreytingar. Ég tek undir með hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að kerfisbreytingin er alveg klárlega til góðs og þetta frumvarp, verði það að lögum, markar algjörlega nýja stöðu málaflokksins og skýrara utanumhald um þetta mikilvæga mál, sem var raunar sett af stað af mikilli þörf fyrir að skýra málaflokkinn. Eins og kom fram í framsöguræðu átti það rætur að rekja í umhverfisráðuneytinu en er síðan eðli málsins samkvæmt sameiginlegt verkefni þessara tveggja ráðuneyta sem endaði síðan í þeirri niðurstöðu að málaflokkurinn sem slíkur var fluttur undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í forsetaúrskurði nú á haustmánuðum.

Ég vil, virðulegur forseti, nefna örfá efnisleg atriði — þingnefndin á auðvitað eftir að fjalla um málið og aðlaga það umhverfinu og þeim athugasemdum sem koma inn, þótt ég vænti þess að flestar þeirra hafi þegar komið til umfjöllunar á fyrri stigum — sem hafa verið þess eðlis að þau hafa fengið umfjöllun í samfélaginu á síðustu mánuðum og missirum og vil ég sérstaklega nefna tvö mál til að byrja með. Annars vegar umræða sem stafar af 15. gr. frumvarpsins um velferð dýra, þ.e. um aðgerðir og meðhöndlun. Þar er sérstaklega fjallað um klippingu á skotti og geldingu grísa yngri en vikugamalla. Þar er rætt um að tryggja eigi verkjastillandi lyfjagjöf en ekki að undangenginni svæfingu. Gelding er sársaukafull aðgerð og það er í sjálfu sér engin rannsókn sem staðfestir að sársaukaskyn sé minna eða takmarkaðra hjá ungum dýrum en eldri dýrum. Þetta er því til mikillar umhugsunar og mér finnst líklegt að þessi umræða fái töluvert rými í almennri umfjöllun í samfélaginu og ég fagna því í sjálfu sér en vil nefna það hér.

Hins vegar það sem heyrir kannski eða kemur nær því sem heyrir undir mitt ráðuneyti, það eru aflífunarkaflinn, sem er 20. gr. frumvarpsins og varðar gildruveiði minka. Þar er mikilvægt tel ég vera að halda til haga að dýraverndarráð hefur sérstaklega bent á að minkar hafa mikla köfunareiginleika líkt og selir. Því er líklegt að þeir geti liðið miklar kvalir, þ.e. þeir geta haldið fullri meðvitund allt til dauða sem getur tekið mjög langan tíma. Þetta er til umræðu en verður væntanlega tekið til umfjöllunar hjá nefndinni. Þessi aðferð hefur verið notuð sem hluti af skipulegum aðgerðum til aflífunar minka þegar menn hafa verið að freista þess að fækka eða útrýma minkum í villtri náttúru á Íslandi. Þetta er um leið þáttur sem væntanlega kemur til umfjöllunar nefndarinnar.

Ég vil líka nefna eitt atriði sem er 30. gr. Þar er fjallað um skilyrði varðandi aðbúnað villtra dýra í dýragörðum. Nefndin skilaði í tillögum sínum heimild ráðherra til að setja reglugerð sem heimilar takmörkun eða bann við vörslu ákveðinna dýrategunda eða dýrakynja. Dýraverndarráð telur það sérstaklega varhugavert þar sem nauðsynlegt getur verið að banna eða takmarka ákveðnar tegundir dýra í dýragörðum, m.a. vegna þess að þau geta átt sérlega erfitt með að aðlagast umhverfi í dýragörðum og jafnvel íslenskum aðstæðum. Er þá skemmst að minnast upplifunar barna hér á síðustu öld þegar ísbirnir og ljón voru heimsótt í sædýrasafnið í Hafnarfirði og var engum til sóma.

Hér eins og kom fram í framsöguræðu er jafnframt rætt ítarlega um stjórnvaldsfyrirmæli og viðurlög þar sem hefur skort á inngripsheimildir og viðurlög. Þar hefur tillögu nefndarinnar eins og hún lá fyrir verið breytt á grundvelli umsagna, og m.a. þeirri heimild eftirlitsaðila að fara með aðstoð lögreglu inn í húsnæði eða á staði þar sem um leyfisskylda starfsemi er að ræða í þeim tilfellum þar sem ítrekað hefur verið reynt að framkvæma eftirlit án árangurs eða þar sem umráðamaður neitar eftirlitsaðila um aðgang. Þessi heimild er að margra mati nauðsynleg til að auka skilvirkni þessa eftirlits. Við þekkjum það víða úr eftirlitsgeiranum, hvort sem það er Matvælastofnun eða Umhverfisstofnun, að lagagreinunum þarf að fylgja skilvirkni. Ekki er nægilegt að vera með ákvæðin inni ef eftirlitsheimildirnar eru ekki skýrar. Það yrði þunglamalegt ef eftirlitsskyldir aðilar neita eða færast ítrekað undan skoðun, það þyrfti þá að sækja um dómsúrskurð í hvert sinn til að sinna þessu lögbundna eftirliti.

Virðulegur forseti. Ég styð eindregið framlagningu og umfjöllun málsins og tel að þetta sé mjög mikilvæg réttarbót. En vegna þess hver aðdragandi og uppruni málsins er, að það stafar frá ráðuneyti umhverfismála til að byrja með, síðan í góðu samstarfi við fyrrum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og núna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, taldi ég rétt að drepa á þessi álitamál sem ég er fullviss um að hv. atvinnuveganefnd mun taka til málefnalegrar skoðunar í umfjöllun sinni.