141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

fríverslunarsamningur við Kína.

[15:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra þykir gaman að slá á létta strengi og slá öllu upp í grín. Staðreynd málsins er samt sú að Asía er það svæði í heiminum þar sem vöxturinn í viðskiptum er mestur og ég tel það gríðarlega mikilvægt og mikinn feng að því fyrir okkur ef okkur tækist að gera fríverslunarsamninga við þau svæði í heiminum sem eru í hvað örustum vexti. 80% af nýjum viðskiptum verða í Asíu og Kína er þar í fararbroddi. Það er svo sem hægt að gera að þessu eitthvert gys og það er þá þannig sem ríkisstjórnin lítur á þetta mál, að það snúist allt um það hvaða afstöðu formaður Sjálfstæðisflokksins hefur til Alþýðulýðveldisins Kína, en ég er að horfa á langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar, viðskiptahagsmuni okkar inn í framtíðina, tengslin við þau svæði í heiminum þar sem viðskiptavöxturinn er mestur og bera það síðan saman við þær áherslur sem birtast í verki hjá ríkisstjórninni með því að eyða öllum kröftum sínum í önnur markaðssvæði eins og allir sjá og þekkja.

Það sem stendur þá upp úr eftir þetta svar ráðherrans er að það verða (Forseti hringir.) sem sagt ekki tvær samningalotur og það hefur dregist að halda viðræðunum áfram. Þá er spurningin: Hvers vegna er þessi dráttur í málinu? Er það vegna þess að menn leggja meiri áherslu á hin svæðin sem eru í stöðnun eða jafnvel samdrætti?