141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

fríverslunarsamningur við Kína.

[15:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tel að það sé sérstök ástæða til að biðja hv. formann Sjálfstæðisflokksins afsökunar á því að utanríkisráðherra nennir ekki að vera alltaf hundleiðinlegur og í leiðu skapi, heldur leyfir sér að vera léttlyndur, bjartsýnn og brosandi eins og hann er að upplagi.

Það eru fagnaðartíðindi að málin skuli vera komin þetta langt. Hv. þingmaður spyr hvað valdi drættinum. Drættinum veldur að það voru og eru auðvitað formlega enn þá alvarlegir agnúar á þessum fríverslunarviðræðum. Þeir fólust meðal annars í því að Kínverjar óskuðu eftir nánast óheftum aðgangi fyrir kínverskt vinnuafl tímabundið hingað til lands. Við höfum staðið fast gegn því. Sömuleiðis veit hv. þingmaður að við höfum mjög skýra stefnu um það með hvaða hætti við viljum fara með tolla á sjávarafurðum. Á þeim tíma var ekki jarðvegur fyrir því í Alþýðulýðveldinu Kína. Þetta eru mál sem menn hafa verið að nudda sín á milli til að undirbúa viðskiptalotuna.

Ég geri mér mætavel grein fyrir því sem formaður ráðherraráðs EFTA að það er eftir miklu að slægjast í Asíu. (Forseti hringir.) Þar er vöxturinn mikill og þess vegna erum við í óðaönn að gera sem flesta viðskiptasamninga einmitt við þennan heimshluta. Ég vona svo að hv. þingmanni hugnist það að ég brosi til hans í lokin.