141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

hækkun skatta á ferðaþjónustu.

[15:17]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel auðvitað að það sé ástæða til að fara yfir skattaleg málefni ferðaþjónustunnar í heild og skoða þau og samræma. Ég sé ekki standa sterk rök til þess að hótelgisting, t.d. yfir sumartímann þegar auðvelt er að fylla hótel hér og selja þau nokkuð háu verði á tímum þegar gengi krónunnar er mjög lágt skráð og samkeppnisstaða greinarinnar þar af leiðandi mjög sterk, sé skattlögð eins og menning og matur með 7% virðisaukaskatti sem getur leitt til þess að nettóskattur tiltekinna rekstraraðila í þessari grein er nálægt núlli og sum þeirra fá jafnvel endurgreitt.

Ferðaþjónustan hefur vaxið vel, það er okkur ákaflega mikilvægt, og framtíðarhorfurnar eru bjartar. Margir greinendur telja að Ísland sé búið að fá þvílíka auglýsingu og þvílíka stöðu á vinsældalistum blaða og tímarita sem mikið eru lesin af þeim sem eru að spá í ferðalög að við eigum ekki að þurfa að kvíða framhaldinu. Ferðaþjónustan sem er að verða ein af burðarásum íslensks atvinnulífs verður auðvitað eins og aðrar greinar að sæta því að skattalegt umhverfi hennar sé skoðað af og til. Það tel ég fulla ástæðu til að gera.

Varðandi áformin eins og þau standa í fjárlögunum höfum við hins vegar viðurkennt að það sé bratt að fara í þessa hækkun í einu lagi og láta hana taka gildi strax 1. maí nk. Fjármálaráðherra hefur lýst því fyrir að það sé til skoðunar, bæði hvað varðar tímasetningar og/eða útfærslu, og mun niðurstaðan að sjálfsögðu liggja fyrir áður en fjárlög og tengd tekjuöflunarfrumvörp verða afgreidd. Þetta hefur verið skoðað í nefnd sem ferðaþjónustan á aðild að og ég bind vonir við að menn nái þar saman um skynsamlega útfærslu þessara mála sem gæti falið í sér áfanga í breytingum í þessum efnum sem mundu síðan tengjast því að skattaleg umgjörð og ekki síst virðisaukaskattsfyrirkomulag innan ferðaþjónustunnar í heild yrði endurskoðað. Þannig er að ferðaþjónustan býr í raun og veru við þrjú skattþrep í dag, núll á vissri þjónustu, (Forseti hringir.) fólksflutningum og tengdri starfsemi, 7% á gistingu og matvæli og svo í vissum tilvikum við fullan skatt.