141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

vegarstæði um Gufudalssveit.

[15:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem fram kom í máli hv. þingmanns, að um vegalagningu á Vestfjarðavegi í Gufudalssveit hafa staðið deilur um nokkra hríð sem lyktaði með því að ákveðið var að fela Vegagerðinni að kanna ýmsa kosti að láglendisveg þar sem því hafði verið andæft mjög hressilega að fara yfir hálsana eins og ég hafði lagt til. Þeir kostir sem hv. þingmaður nefnir eru þar til skoðunar.

Einnig er verið að skoða jarðgangagerð undir hálsana en ekki síður þá leið sem hv. þingmaður hafði flest orð um, svokallaða I-leið um Þorskafjörðinn utanverðan. Þetta hefur verið kannað á undanförnum mánuðum í sumar og í haust og Vegagerðin unnið að matsáætlun sem nú verður skotið til Skipulagsstofnunar til umsagnar. Ég á von á því að svo verði gert innan skamms og er ég þá ekki að tala í mánuðum heldur í vikum.