141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar á íþróttasvæðum.

[15:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það vakti nokkra athygli nú síðla sumars þegar íbúi í Grafarvogi tók sig til og tók niður eigin hendi fjölmargar áfengisauglýsingar sem voru á víð og dreif á útivistarsvæðinu næst heimili hennar. Þetta var umgjörð íþróttamóts sem Golfklúbbur Reykjavíkur stóð fyrir. (Gripið fram í.)

Áfengisauglýsingar eru bannaðar með lögum og Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hafa veitt þessum íbúa í Grafarvogi, sem er Salvör Kristjana Gissurardóttir, sérstaka viðurkenningu fyrir að sinna borgaralegri skyldu sinni í þessum efnum.

Þessi samtök hafa barist einarðlega á undanförnum árum gegn áfengisauglýsingum sem eru allt of víða í umhverfi okkar og lagt margar kærur inn til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins fyrir brot á 20. gr. áfengislaganna en án mikils árangurs.

Eftir atvikið í Grafarvogi hafa foreldrasamtökin sent öllum sveitarfélögum og fjölmiðlum og þingmönnum, að ég hygg, ábendingu um að áfengisauglýsingar hanga víðar uppi á íþróttasvæðum, á fótboltavöllum og í íþróttahúsum þar sem börn og ungmenni eru að leik. Foreldrasamtökin telja að með því sé brotið á lögvernduðum rétti barna til að stunda íþróttir og æskulýðsstörf án áreitis af áfengisauglýsingum.

Nú langar mig að spyrja hæstv. íþróttamálaráðherra, æskulýðsráðherra og menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, hvort hún telur þetta ásættanlega stöðu og hvað sé til ráða.