141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

trúnaður í störfum nefnda.

[15:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að þetta er algjörlega óþolandi staða sem við erum sett í. Hæstv. ráðherra tjáir sig um þetta mál. Ég ætla ekki að fara efnislega í það en ég get þó sagt að ég er mjög ósammála mörgu því sem hann sagði. Það getur ráðherra algjörlega getið sér til um vegna þess að við höfum átt samtöl um þetta í utanríkismálanefnd.

Nú er það þannig að þessar viðræður eru samkvæmt og eftir leiðsögn meirihlutaálits utanríkismálanefndar Alþingis. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að í því efni verði leitast við að takmarka svo sem kostur er að leggja trúnaðarskyldur á þær upplýsingar sem fyrir liggja og leggur ríka áherslu á að samninganefnd og einstakir samningahópar taki mið af þessu.“

Enn fremur segir:

„Þrátt fyrir reglur um trúnað í starfi nefndarinnar er lögð áhersla á mikilvægi gegnsæis í öllu starfi hennar og því eðlilegt að hófs sé gætt í beitingu trúnaðarreglunnar. Með þessu yrði meðal annars tryggt að eftir atvikum gætu fundir nefndarinnar verið fyrir opnum tjöldum.“

Frú forseti. Nú vil ég fara fram á það að haldinn verði opinn fundur í utanríkismálanefnd um einmitt samningsafstöðuna sem hér kom til umræðu vegna þess að það er óþolandi að hæstv. ráðherra og aðrir geti tjáð sig um þetta en ekki við hin sem í nefndinni sitjum.