141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

trúnaður í störfum nefnda.

[15:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ástæða er til að taka undir ábendingar þeirra hv. þingmanna sem töluðu hér á undan mér. En vegna ummæla hæstv. forseta rétt áður en ég tók til máls vil ég geta þess sérstaklega að mér þykir mikilvægt að hæstv. forseti skýri hvernig túlka beri þessar reglur.

Eins og menn þekkja var sú regla almenn í utanríkismálanefnd hér áður fyrr að það sem þar færi fram væri trúnaðarmál. Slakað var á þeirri reglu og henni breytt á þann veg að í raun væri ekki um trúnaðarmál að ræða nema sérstaklega væri kveðið á um það.

Túlkunin hefur hins vegar verið svolítið út og suður og jafnvel farið eftir því hvaða þingmaður á í hlut, leyfi ég mér að segja. Þannig höfum við dæmi um að einn hv. þingmaður hafi sérstaklega verið ávíttur fyrir trúnaðarbrot í nefnd, reyndar ekki í utanríkismálanefnd, á meðan aðrir þingmenn, sem brutu trúnað sem sérstaklega var tekið fram að gilti í utanríkismálanefnd, komust upp með það.

Það er því mikilvægt að forseti útlisti nákvæmlega hvernig forseti hyggst túlka þessar reglur og fylgja þeim eftir.