141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

aflaregla.

218. mál
[16:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það vekur furðu mína að fá upplýsingar um það hvernig málið er unnið í raun og veru. Nú segir hæstv. ráðherra að búið sé að senda bréf til Alþjóðahafrannsóknaráðsins til að fara yfir þessar reglur.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur þetta verið kynnt fyrir atvinnuveganefnd? Er þetta það fyrsta sem þingið fær að vita um hvað er verið að gera? Ég er sammála hæstv. ráðherra um að mjög skynsamlegt sé að hafa ákveðnar nýtingarreglur, en þá þurfum við að ná lengra með það því við vitum að tillögur Hafrannsóknastofnunar eru ekki óumdeildar. Það þarf að reyna að ná sátt því að tillögur stofnunarinnar endurspegla ekki ástandið á miðunum. Skýrt dæmi um það sést einmitt þessa dagana.

Mig langar að velta því upp við hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að áður en menn fái þetta stimplað frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu verði að tryggja að þeir séu ekki fastir í einhverri gildru og geti ekki bakkað út úr stöðunni. Mér finnst að breyta þurfi vinnubrögðunum í þessum málum, hvort sem um er að ræða þetta mál eða heildaraflamarksúthlutun, á meðan svona mikil tortryggni ríkir á milli sjómanna og Hafrannsóknastofnunar.