141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

aflaregla.

218. mál
[16:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör, sömuleiðis hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir þátttöku í þessari umræðu. Hér komum við að gríðarlega mikilvægu máli. Það var heilmikið átak á sínum tíma 1995 og 1996 að setja á aflareglu í þorski. Við vitum líka að oft hefur reynt á þetta. Eins og ég nefndi stuttlega í fyrri ræðu minni hafa ýmsar breytingar verið gerðar á framkvæmd aflareglunnar, m.a. til að taka tillit til aðstæðna á hverjum tíma í hafinu.

Aflareglan gengur út á að reyna að veiða tiltekið hlutfall af viðmiðunarstofni og hafa síðan jöfnunarákvæði í reglunni til að koma í veg fyrir mjög miklar sveiflur. Það prinsipp finnst mér vera í meginatriðum skynsamlegt. Stóra málið og hitt atriðið sem við þurfum líka að leiða fram er að við undirbyggjum sem allra best þær rannsóknir sem við leggjum til grundvallar hlutfallinu af veiðinni. Þar held ég að sé gríðarlega mikið verk að vinna.

Auðvitað verða hafrannsóknir aldrei óumdeildar en við stöndum núna frammi fyrir því, sérstaklega varðandi ýsuna sem nú á að fara að setja inn í aflaregluna, að það er óskaplega mikill ágreiningur um matið á stærð ýsustofnsins. Við sjáum að samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunarinnar og að ef þeirri aflareglu sem nú er verið að leggja til hefði verið beitt, væri aflamarkið orðið 32 þús. tonn. Það er nálægt því sem er í dag en það hefði hins vegar ekki breytt því að samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar eru fram undan hugmyndir um frekari niðurskurð. Það er greinilega í ósamræmi við það sem sjómenn segja manni frá á miðunum þar sem þeir eru á harðaflótta undan ýsunni og eru í hreinum vandræðum með að veiða þorsk vegna þess að þá vantar ýsukvóta.

Þess vegna held ég að það skipti öllu máli (Forseti hringir.) þegar svona ákvörðun er tekin að sá grundvöllur að rannsóknum og mati sem þarf að vera til staðar liggi fyrir með eins ótvíræðum hætti og mögulegt er.