141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

aflaregla.

218. mál
[16:11]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi samráð um þetta mál skal ég játa að ég þekki ekki að hve miklu leyti það hefur verið kynnt atvinnuveganefnd sérstaklega og Alþingi. Hafi það ekki verið gert biðst ég velvirðingar á því og tek það á mig.

Samráð við hagsmunaaðila í greininni hefur verið mjög umfangsmikið. Strax eftir að bréfið barst Hafrannsóknastofnun í janúarmánuði síðastliðnum fór það af stað og byggði auðvitað á því samráði sem að baki var, svonefndri Skúlanefnd og fleiru. Þetta rekur sig allt aftur til nóvembermánaðar 2009 þegar þáverandi ráðherra hefur samband við Hafrannsóknastofnun og setur ferlið með vissum hætti af stað. Að vísu er þá undir að endurskoða jafnvel að einhverju leyti aflareglu í þorski, en málið þróast svo yfir í að skoða jafnframt möguleika á aflareglum fyrir fleiri tegundir og heldur áfram með bréfi og samráðshópi sérfræðinga haustið 2010.

Í framhaldi af bréfinu til Hafrannsóknastofnunar nú í ársbyrjun hefst mjög víðtækt samráð þar sem fulltrúar útgerðarinnar, Landssambands smábátaeigenda, LÍÚ, Samtök íslenskra fiskimanna, fulltrúar allra sjómannasamtakanna, fiskvinnslunnar, bæði með og án veiðiheimilda, og fjölmennt lið frá Hafró vinna saman. Þá eru haldnir á annan tug funda og málið rækilega kynnt. Í framhaldi af þeirri kynningu gafst mönnum færi á og voru í raun beðnir um að skila inn skriflegum athugasemdum, ef einhverjar væru, um tillögurnar að aflareglum fyrir þessar þrjár tegundir.

Ég tek að sjálfsögðu undir það að mikilvægt er að menn ræði grunn ráðgjafarinnar sjálfrar í þessu samhengi. Vissulega þekki ég afar vel til stöðunnar með ýsuna þar sem sýnist sitt hverjum. Engu að síður held ég þó að kostir þess að reyna að þróa og móta langtímanýtingarstefnu séu ótvíræðir, eins og ég sagði áður.

Loks vil ég geta þess að ég er þeirrar skoðunar að við eigum í framhaldinu að taka líka til endurmats útfærslu aflareglunnar um þorsk (Forseti hringir.) í ljósi þess að uppbygging stofnsins hefur gefist vel. Það er ekki víst að eigi að innbyggja sömu varúðarmörk og sömu meðalreglur inn í aflaregluna þegar ástand stofnsins er orðið jafngott og raun ber vitni nú (Forseti hringir.) og kannski ætti jafnvel að endurskoða sjálfa veiðireglutöluna.