141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

matsáætlun vegna framkvæmda á Vestfjarðavegi 60.

69. mál
[16:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og hér er rifjað upp hafa staðið lengi deilur um hvar leggja eigi veg um Gufudalssveitina og hv. þingmaður rifjaði upp þær meginhugmyndir sem fram hafa komið. Í reynd má segja að tveir meginstraumar hafi lengi vel einkennt þá umræðu. Annars vegar að fara um Teigsskóg, sem kölluð hefur verið B-leið, og hins vegar að fara yfir hálsana, fara með veg eða bæta veginn yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Það var sú leið sem ég aðhylltist á sínum tíma, einfaldlega vegna þess að hún þótti ódýrust og líklegust til að ná fram samgöngubótum á skömmum tíma. En heimamenn voru þessu mjög afhuga.

Á hinn bóginn voru deilur um Teigsskógarleiðina, B1-leiðina sem svo hefur verið nefnd, og gagnrýnin sem fram kom var af ýmsum rótum runnin, umhverfissjónarmið og önnur sem við getum kallað tilfinningaleg rök líka. Nema hvað, síðan var farið að skoða aðra kosti í stöðunni eftir að þessar tvær leiðir voru slegnar af, annars vegar að fara Teigsskóginn og hins vegar yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls, yfir hálsana sem svo er kallað.

Hv. þingmaður vill vita hvers vegna svokölluð B-leið sé ekki með í tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Vestfjarðavegi milli Bjarkarlundar og Melaness í Reykhólahreppi. Það er meginspurningin; hvers vegna var sú leið slegin af?

Því er til að svara að ýmis rök, skipulagsleg, fjárhagsleg og vegtæknileg þóttu mæla með því að svokölluð B-leið ætti að vera með í tillögu að matsáætlun ásamt öðrum leiðum. Þrátt fyrir það er uppi lagaleg óvissa vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum leiðar B og engan veginn víst að hægt sé að halda áfram með þá leið.

Það er mat innanríkisráðuneytisins að það mundi fresta framkvæmdum um einhver ár að reyna leið B aftur með fyrirsjáanlegum kærum og málaferlum, auk þess sem niðurstaða úr slíku ferli væri alveg óviss. Innanríkisráðuneytið, og þá ég hef ákveðið að þessi leið verði ekki með í matsáætlun af þessum sökum, einfaldlega vegna þess að fyrirsjáanlegt er að þetta mundi fresta framkvæmdum um langan tíma og niðurstaðan yrði einnig mjög óviss. Þar að auki verð ég að segja að þær leiðir aðrar sem eru skoðaðar — og þá er ég að lýsa mínu persónulega mati sem ég hef reynt að láta ekki flækjast mjög mikið fyrir mér í þessari umræðu — þá eru aðrir kostir betri og ég vil ganga úr skugga um hversu fýsilegt er að fara með göng undir hálsana eða fara það sem nefnd hefur verið svokölluð I-leið, þ.e. að þvera Þorskafjörðinn utarlega. Þar koma mismunandi kostir einnig til skoðunar. Þetta þarf að skoða mjög rækilega.

Sú var tíðin að ég var mjög andvígur þverun fjarða og taldi mikil umhverfisspjöll að því en staðreyndin er sú að hægt er að hafa ýmsan hátt á í þeim efnum. Það er eitt að þvera innarlega og eyðileggja leirurnar í fjörðunum og síðan, eins og við höfum dæmi um á Vestfjörðum, að brúað er með mjög víðu hafi og án þess að valda miklum spjöllum á ströndinni.

Þetta eru einfaldlega kostir sem við þurfum að skoða. Þetta er ástæðan, hv. þingmaður, fyrir því að B-leiðin, Teigsskógarleiðin, var slegin út af borðinu og er ekki til athugunar í þessu ferli.