141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um flug til Grænlands.

70. mál
[16:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, það er nauðsynlegt að skoða málin heildstætt, ekki aðeins einblína á kostnaðinn heldur horfa líka til tekna sem hafa má af þessum breytingum. Eins og hér hefur komið fram hafa þessi mál verið til skoðunar hjá Isavia.

Síðan er á hitt að líta að landfræðilegar aðstæður við Ísafjarðarflugvöll eru óneitanlega erfiðar og hafa krafist þess að leitað sé eftir undanþágum. Það breytir því ekki að mat manna er að hægt sé að nota flugvöllinn sem millilandaflugvöll með þessum lágmarksfjárfestingum, stofnkostnaði og síðan rekstrarkostnaði, annars vegar 85 millj. kr. og hins vegar 34 milljónir í rekstrarkostnað á ári. Þessar upplýsingar liggja núna fyrir og við munum síðan að sjálfsögðu skoða framhaldið.