141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

GSM-samband á Hellisheiði og Suðurstrandarvegi.

229. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um það hvort áformað sé að bæta GSM-samband á Hellisheiði og Suðurstrandarvegi. Ég hefði átt að bæta Þrengslunum inn í þessa kippu og ef hæstv. innanríkisráðherra hefur upplýsingar um þau fyrirvaralaust væri ágætt að fá þær líka.

Þetta eru í rauninni tvö mál. Annars vegar er það Hellisheiðin á þjóðvegi 1, að mestu leyti er hún í sambandi en þó eru staðir, t.d. í brekkunni hjá Skíðaskálanum í Hveradölum og á einstaka stöðum á heiðinni, þar sem GSM-samband dettur niður. Það er mjög bagalegt, sérstaklega í ljósi þess að fjarskiptasjóður hefur, eftir því sem ég kemst næst, unnið að því á undanförnum árum að bæta og tryggja GSM-samband á þjóðvegi 1.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort til standi að laga þetta á þessum fjölfarna vegi á þjóðvegi 1 þar sem veður eru válynd og ótækt að hafa stopult GSM-samband.

Suðurstrandarvegur er hins vegar ekki á þjóðvegi 1. Vonandi verður hann fjölfarnari en hann er núna. Þetta er nýr vegur, ég nota hann mjög mikið, búsett á Suðurnesjum, á oft og reglulega erindi á Suðurlandið og fór síðast þennan ágæta veg í morgun. Þar er staðan þannig að á löngum kafla vegarins er ekki neitt samband. Það er ekki ofsagt að segja að sambandið sé stopult, það er mjög lélegt samband.

Eins og ég segi er umferð kannski ekki mjög mikil núna en þess þá heldur er af öryggissjónarmiðum mjög mikilvægt að hafa samband þannig að hægt sé að kalla til aðstoð ef eitthvað fer úrskeiðis. Eins og ég segi er núna ekkert samband á löngum köflum á þessum vegi.

Ég beini því fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um hvort áform séu uppi um að bæta GSM-samband á þessum tveimur vegum sem ég nefndi. Ef hæstv. ráðherra hefur upplýsingar um Þrengslin sem er svipað ástatt um, sambandið dettur út á einstaka köflum, þætti mér vænt um að fá upplýsingar um þann veg líka.