141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

GSM-samband á Hellisheiði og Suðurstrandarvegi.

229. mál
[17:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir að leggja þessa spurningu fram. Ég verð að segja að svör ráðherrans voru svolítið óskýr, ég gat ekki betur heyrt en að engin áform væru uppi um að bæta þessa þjónustu og af því hef ég miklar áhyggjur. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda er það mikið öryggisatriði að hægt sé að ná sambandi á Suðurstrandarvegi og eins hljótum við að ætla okkur til framtíðar litið að hafa sambandið á þjóðvegi 1 þannig að hægt sé að ná þar sambandi og halda því ef á þarf að halda á þessari helstu leið okkar Íslendinga í gegnum og kringum landið okkar.

Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða og vonast til þess að fá aðeins skýrari og þá vonandi jákvæðari svör í seinna svarinu.