141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

diplómanám á háskólastigi fyrir fólk með þroskahömlun.

266. mál
[17:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið sem mér fannst vera skýrt í þá veru að hún styður háskólann eindregið í því að þetta nám verði fest í sessi. Við verðum að hafa það hugfast að samkvæmt lögum á fatlaður nemandi, sama á hvaða stigi hann er, rétt á skólagöngu á öllum skólastigum. Ég vil líka taka Háskóla Íslands hér inn. Menntun er algjör forsenda þess að nemendur njóti ekki bara lýðræðislegra réttinda sinna heldur líka þeirra tækifæra sem skólakerfið býður upp á til að efla, þroska og styrkja nemendur og einstaklinga til að sinna því sem lífið býður síðan upp á og krefur það um þegar þeir eru komnir út í samfélagið eftir skólagöngu.

Það er ólöglegt að mismuna fólki á grundvelli fötlunar, þroskahömlunar eða annarra námserfiðleika. Þetta er að mínu mati undirstrikað í stjórnarskránni sem við höfum stuðst við síðan 1944. Þetta verðum við að hafa í huga.

Ég held að mikilvægt sé að skynja líka þann mikla velvilja sem Háskóli Íslands hefur gagnvart þessu verkefni. Við vitum að nemendaígildin eru ekki greidd að fullu. Það er gömul saga og ný og hægt að gagnrýna núverandi ráðherra sem og forvera í embætti fyrir það. Engu að síður verður háskólinn að vera meðvitaður um að það er ekki hægt að líta á þroskahamlaða nemendur sem afgangsstærð ef fjárframlög fylgja ekki nægilega nemendaígildum. Við sjáum líka að niðurstöður kannana benda til þess að viðhorf kennara sem kennt hafa diplómanemum er mun jákvæðara í garð námsins en hinna sem ekki þekkja til námsins eða nemendanna í þessu diplómanámi.

Mér finnst mikilvægt að hafa dregið þetta fram og ekki síður velvilja ráðherra í þessu máli. Það er mikilvægt hvort sem við tilheyrum löggjafarvaldi eða framkvæmdarvaldi (Forseti hringir.) að vilji sé til staðar þannig að skilaboðin út í samfélagið verði skýr: Skólinn okkar, á hvaða stigum sem er, er fyrir alla.