141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

rekstur og stjórnsýsla Vatnajökulsþjóðgarðs.

246. mál
[18:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um Vatnajökulsþjóðgarð. Við höfum áður rætt mál þjóðgarðsins í þessum sal og af minni hálfu hefur komið fram að ég skil ekki hvers vegna yfirstjórn þjóðgarðsins er ekki staðsett á því svæði sem þjóðgarðurinn er. Hún er í Reykjavík. Ég verð að segja að allir þeir sem hafa komið að þessum málum og rætt þau við mig skilja heldur ekki hvers vegna fyrirkomulagið er þannig.

Mig langar því að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort til standi að breyta þessu og færa yfirstjórnina út á land. Fyrirspurnin er ekki flóknari en þetta, ég tel óþarfa að lengja mál mitt, ætla að hafa þetta stutt og laggott svo ég fái skýr svör.